Stýrivextir áfram 18%

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. Mbl.is/Brynjar Gauti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 18% en þeir voru hækkaðir úr 12% í síðustu viku í takt við viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF). Reiknað er með því að framkvæmdastjórn IMF taki ákvörðun um lán til Íslands á morgun.

Segir á vef Seðlabankans að greining bankans á stöðu og horfum í efnahagsmálum mun birtast í Peningamálum á heimasíðu bankans í dag um kl. 11.

„Sem kunnugt er mótast stefnan í efnahagsmálum á næstunni í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Búist er við að endanleg ákvörðun liggi brátt fyrir og að aðgerðaráætlun birtist í kjölfarið. Bankastjórn Seðlabankans mun greina frá stefnunni í peningamálum í framhaldi þess," að því er segir á vef Seðlabanka Íslands.

Peningamálastefnan ekki lengur í höndum Seðlabankans

Í Morgunkorni Glitnis í gær kom fram að  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur í samvinnu við ríkisstjórnina tekið við stjórnun peningamála, a.m.k tímabundið. Vaxtahækkunina átti að framkvæma áður en framkvæmdastjórn IMF tæki ákvörðun um hugsanlegt lán til Íslands og legði blessun sína yfir aðgerðaáætlun ríkisstjórnar og sjóðsins.

Velti Greining Glitnis því fyrir sér í gær hvort löngu boðaður vaxtaákvörðunardagur Seðlabanka Íslands í dag hafi nokkra þýðingu þar sem ljóst sé að það er ekki í höndum bankans að ákveða vexti.

„Ljóst er að bankinn vill ekki setja hugsanlega lánveitingu IMF í uppnám og mun því halda vöxtum óbreyttum. Engin óvissa virðist um það og vaxtaákvörðunardagurinn að því leytinu til óþarfur. Það sem verður hins vegar áhugavert er að heyra umræðu bankastjóra Seðlabankans um stöðu bankans í þessu nýja umhverfi," að því er segir í Morgunkorni Glitnis í gær.

Vafi um lánveitingu

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að  sum ríki Evrópusambandsins hafa látið að því liggja að afstaða þeirra í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til láns til Íslands geti ráðist af því hvort niðurstaða fáist í deilum Íslendinga við Hollendinga og Breta vegna Icesave-reikninganna.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var stjórnarfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem halda átti í fyrradag, frestað til föstudags, vegna þessarar afstöðu Breta og Hollendinga. Sömu heimildir herma að ríkisstjórn Íslands sé nú uggandi um hvers konar afgreiðslu lánsumsókn Íslands hjá IMF fær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert