Verðhækkanir í IKEA

IKEA
IKEA mbl.is/Eyþór

Verð á vörum IKEA mun frá og með deginum í dag hækka um að jafnaði 25%. Vöruverð breytist mismikið milli vöruliða og vöruflokka en jólavörur munu ekki hækka. Aldrei áður í 28 ára sögu IKEA á Íslandi hefur það gerst að hækka þurfi verðið á miðjum gildistíma IKEA bæklingsins, segir framkvæmdastjórinn.

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir að verðhækkanirnar taki gildi í dag en 7-10 daga muni taka að klára að verðmerkja allar deildir upp á nýtt. Búast megi við að frá og með deginum í dag hækki verð í 1-2 deildum á dag þar til verðum í öllum deildum hefur verið breytt.

Spurður hvernig fólk geti nálgast nýju verðin fyrst IKEA bæklingurinn sem gefinn var út í ágúst gildi ekki lengur, segir hann að verðin á vefnum, ikea.is, verði uppfærð jafnóðum. Hins vegar geti fólk nánast bætt 25% við öll verðin í bæklingnum.

Þórarinn segir að verðtilboð í eldhús, sem fólk hefur látið teikna og hanna fyrir sig, standi.

Í frétt í Morgunblaðinu í október sagði Þórarinn að verð í IKEA myndi ekki hækka þar sem stefna fyrirtækisins væri sú að þau verð sem gefin voru út í lok ágúst gildi til loka ágústmánaðar árið eftir.  „Þá var maður nokkuð bjartsýnn,“ segir Þórarinn. „Þá var talað um að fá lán hjá Rússum og IMF og þetta átti að ganga hratt fyrir sig. Nú erum við búin að bíða og bíða og það eina sem gerist er að evran verður sterkari og krónan veikari og í rauninni lítur ekki út fyrir að það lagist á næstunni. Við einfaldlega gátum ekki rekið þetta áfram að öllu óbreyttu en að sjálfsögðu vonum við að þetta jafni sig og við getum farið aftur í gamla verðið. Ég ætla alls ekki að útiloka það.“

„Þetta eru þung og erfið skref að taka svona ákvörðun,“ segir Þórarinn og bætir við að aldrei áður í 28 ára sögu IKEA á Íslandi hafi verð verið hækkað á miðjum gildistíma bæklingsins.  „Þetta lýsir því hvernig ástandið er.“

Þórarinn tekur þó fram að maturinn á veitingastað IKEA muni ekki hækka í verði. Það stafar af því að mestallt hráefnið er keypt innanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert