Malarvinnslan gjaldþrota

Stjórn Malarvinnslunnar á Egilsstöðum hefur ákveðið að óska eftir að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Hjá fyrirtækinu starfa um 60 manns en 40 manns var sagt upp fyrir nýliðin mánaðamót. Heildarskuldir Malarvinnslunnar nema um 2,5 milljörðum króna.

Gunnlaugur Aðalbjarnarson, stjórnarformaður Malarvinnslunnar segir að undanfarið hafi verið unnið að því sð selja einstakar einingar fyrirtækisins. Tilboð liggi á borðinu en formlegt samþykki liggi ekki fyrir frá lánardrottnum. Gunnlaugur segir að með hruni bankanna hafi fjármögnun nánast allra framkvæmda sem í gangi voru hrunið. Nú verði það hlutverk væntanlegs skiptastjóra að taka afstöðu til tilboðanna.

Malarvinnslan hf. var stofnuð 1980. Tilgangurinn var vinnsla steinefna fyrir Vegagerð ríkisins og steypuframleiðendur. Saga félagsins byggir þó á enn eldri grunni því stofnendur Malarvinnslunnar hf. komu úr steinefnageiranum þ.e.a.s. hellu og rörasteypu og olíumalarframleiðslu. Í apríl 2000 runnu saman Malarvinnslan hf. og Brúnás Egilsstöðum ehf.  Brúnás á sér langa sögu sem byggingarfyrirtæki eða frá 1958. Þaðan kom mikil þekking og reynsla í framleiðslu forsteyptra einingahúsa ásamt byggingu bæði íbúðahúsa og atvinnuhúsnæðis. Þessir tveir megin þættir mynda byggingardeildina sem til varð við samrunann.

Heimamenn hafa gert tilboð í byggingadeild Malarvinnslunnar og sagðist Gunnlaugur Aðalbjarnarson bjartsýnn á að hægt yrði að halda stærstum hluta þeirrar starfsemi gangandi. Verkefnastaðan væri viðunandi en meðal annars er verið að byggja grunnskóla á Egilsstöðum.

Malarvinnslan er að fullu í eigu Kaupfélags Héraðsbúa svf. en félagið keypti allt hlutafé í Malarvinnslunni hf. í september í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert