Vilja stjórn VR burt

Gunnar Páll Pálsson formaður VR
Gunnar Páll Pálsson formaður VR

„Við fórum þarna inn í gær og ræddum við formanninn. Hann viðurkenndi mistök í sambandi við niðurfellingar hjá starfsmönnum Kaupþings en var ekki tilbúinn að taka ábyrgð og víkja úr embætti,“ segir Kristófer Jónsson, félagsmaður í VR og einn skipuleggjenda mótmælafundar við höfuðstöðvar VR í hádeginu. Kristófer segir hvorki formanni VR né öðrum stjórnarmönnum sætt eftir niðurfellingar ábyrgða hjá starfsmönnum Kaupþings.

Mikil ólga er meðal félagsmanna í VR vegna ákvörðunar stjórnar Kaupþigns um að fella niður ábyrgðir starfsmanna bankans vegna lána sem tekin voru til hlutabréfakaupa. Gunnar Páll Pálsson, formaður VR sat í stjórn gamla Kaupþingsbanka fyrir hönd Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Hann samþykkti niðurfellingarnar lítk og aðrir í stjórn bankans. Stjórn VR þingaði um málið og lýsti yfir fullum stuðningi við formanninn. Við það sætta félagsmenn sig ekki og vilja stjórnina burt.

„Ég er búinn að missa vinnuna líkt og margir aðrir en ég sé ekki hverngi ég get treyst þessu fólki. Ég get með öðrum orðum ekki leitað til míns stéttarfélags eins og staðan er,“ segir Kristófer Jónsson.

Mótmælafundurinn er boðaður klukkan 12 við höfuðstöðvar VR í Húsi verslunarinnar í Kringlunni.

„Ég vona að sem flestir mæti. Við höfum auglýst þetta á Facebook og ég hvet alla til að sýna hug sinn. Við munum mæta þarna daglega þar til stjórnin axlar ábyrgð og fer,“ segir Kristófer Jónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert