Vilja nýjan stjórnarsáttmála

Innan Samfylkingarinnar er nú vaxandi krafa um að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar verði endurnýjaður. Ríkisstjórnin verði að marka sér nýja framtíðarsýn til að slá á óróleikann í samfélaginu. Fréttastofa RÚV greindi frá því að viðmælendur úr röðum Samfylkingarinnar væru sammála um að ríkisstjórnin verði að taka af skarið og marka skýra stefnu. Stjórnarsáttmálinn frá því vorið 2007 heyrði nú sögunni til.

Skoðanir forystumanna í Samfylkingunni um að skipta þurfi um áhöfn í Seðlabankanum, marka þurfi nýja peningamálastefnu og að alvarlega verði rætt um inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafa ítrekað komið fram en ESB-aðild eða uppyaka evru er ekki í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þá hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra ítrekað tekið fyrir að skipt veðri um áhöfn í Seðlabankanum.

RÚV segir að vaxandi krafa sé að viðræður milli flokkanna fari fram á allra næstu dögum um að saminn verði nýr stjórnarsáttmáli. Ríkisstjórnin verði að móta nýja stefnu og upplýsa almenning um hvert beri að stefna. Það verði að gera, ekki síst til að slá á óróann í samfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert