Upplýsingar vanti enn fyrir IMF-lán

Geir Haarde og Björgvin G. Sigurðsson með fund í Iðnó.
Geir Haarde og Björgvin G. Sigurðsson með fund í Iðnó. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslendingar þurfa að leggja ítarlegri upplýsingar á borðið áður en norrænar ríkisstjórnir geta stutt alþjóðlegan lánveitingarpakka. Þetta er haft eftir finnska forsætisráðuneytinu í blaðinu The Wall Street Journal.

Ilkka Kajaste, aðstoðarráðuneytisstjóri í finnska fjármálaráðuneytinu, segir nákvæmar áætlanir um hvernig reisa eigi efnahagslífið á Íslandi við vanta áður en norrænu þjóðirnar kvitti undir. Kajaste hitti íslenska embættismenn í síðustu viku, að sögn WSJ.

Blaðið greinir frá því að íslenskir ráðamenn hafi beðið um 2,1 milljarða dollara lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, IMF, til að ná stöðugleika í efnahagslífinu. Landið þurfi um fjóra milljarða dollara ofan á þá upphæð í þessum svokallaða björgunarpakka

Sagt er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bíði líka eftir frekari upplýsingum áður en stjórn sjóðsins getur fjallað um lánveitinguna, samkvæmt heimildarmönnum innan sjóðisns.

Fulltrúi sænska seðlabankans segir að eftir eigi að ákveða hvort bankinn taki þátt í björgunarpakkanum eftir að IMF hafi samþykkt 2,1 milljarða dollara lánveitinguna.

Wall Street Journal segist ekki hafa náð í  íslenska forsætisráðuneytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert