Staðan er grafalvarleg

Erfiðleikar við að afla lánsfjár og deilur vegna Icesave virðast hafa sett lánsumsókn Íslands á ís í ótilgreindan tíma. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði þegar hann kom af fundi utanríkismálanefndar í morgun að  staðan væri grafalvarleg, þjóðfélagið þyldi ástandið ekki mikið lengur. Sérstaklega væri útlitið alvarlegt fyrir útflutningsgreinar og viðskipti þar sem allt væri botnfrosið.

Fólk sló skjaldborg um Alþingishúsið í hádeginu í dag til að árétta kröfu sína um þingkosningar hið fyrsta.

Steingrímur segir mjög ámælisvert að stjórnvöld hafi ekkert annað úrræði í stöðunni en Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það mál sé einfaldlega í klessu.  Hver einasti dagur sem líði í fullkominni óvissu sé afar dýrkeyptur.

Ítrekað hefur soðið uppúr milli íslenskra stjórnmálamanna og erlendra starfsbræðra þeirra í útlöndum vegna Icesave deilunnar.  Samkvæmt heimildum fréttastofu var Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, skammaður á fundum með fjármálaráðherrum annars staðar úr Evrópu í Brussel í síðustu viku. Þá er sagt að Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, hafi lent saman við erlenda sendiherra á hádegisverðarfundi á föstudag.

Steingrímur segir það gríðarleg vonbrigði að upplifa hvernig Bretar, Hollendingar og fleiri Evrópuþjóðir hafi tekið á málum og sum Norðurlanda hafa verið meira hikandi en menn hafi átt von á.

Hann segir erfitt að segja til um hvað íslensk stjórnvöld geti gert til að bæta þessi samskipti meðan reynt sé að þvinga þau til að skrifa uppá pólitískar niðurstöður í Icesave deilunni.  Upplýsingum hafi verið komið seint og illa á framfæri og almenningur í þessum löndum sé reiður vegna framgöngu íslenskra banka.  Nafnið Ísland sé stórkostlega laskað og orðstír landsins sé grátt leikinn. Það sé hart og dapurlegt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert