Skiptar skoðanir meðal félagsmanna

Grand Hótel.
Grand Hótel. mbl.is/Ómar

Mikið fjölmenni er á almennum félagsfundi í VR sem haldinn er á Grand hóteli í kvöld. Gunnar Páll Pálsson formaður VR taldi þetta sennilega fjölmennasta fund í sögu félagsins. Hann sagði að boðað hafi verið til fundarins til þess að ræða heit mál síðustu daga.  

Fundurinn var opinn fjölmiðlum í upphafi en síðan voru þeir beðnir um að víkja úr fundarsalnum.

Gunnar Páll Pálsson var fyrstur á mælendaskrá fundarins sem talið var að um 600 félagsmenn VR sætu. Að ræðu hans lokinni átti að bjóða upp á almennar umræður félagsmanna. Gunnar Páll sagði boðað til fundarins til að fara yfir störf hans sem stjórnarmaður í Kaupþingi. Hann kvaðst axla ábyrgð á því sem fram fór á stjórnarfundi bankans 25. september s.l.

Skiptar skoðanir voru á meðal félagsmanna sem rætt var við fyrir fundinn um stöðu formannsins. Sumir voru á því að Gunnar Páll ætti að víkja úr formannssætinu. Það væri ekki við hæfi að formaður verkalýðsfélags sæti í stjórn fjármálastofnunar og nyti þar hárra launa. Aðrir töldu að hann hafi setið í stjórn bankans til að gæta hagsmuna lífeyrissjóðs VR og því félagsmanna. Sumir félagsmenn VR sem rætt var við ætluðu að taka afstöðu að loknum umræðum til þess hvort formaðurinn ætti að sitja eða víkja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert