Frakkar miðla málum vegna Icesave

Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir. mbl.is/Golli

Þórunn Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, átti í dag fund með Jean-Pierre Joyet, Evrópumálaráðherra Frakka þar sem Þórunn gerði stutta grein fyrir stöðu mála á Íslandi og þeim efnahagsvanda sem að steðjar. Frakkar hafa, í krafti formennsku sinnar í ráði ESB, tekið að sér og átt frumkvæði að því miðla málum vegna innistæðureikninga í Hollandi og Bretlandi, samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þórunn sat 30. fund EES-ráðsins sem fór fram í Brussel í dag. Í EES-ráðinu sitja utanríkisráðherrar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins ásamt fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB. Rita Kieber-Beck, utanríkisráðherra Liechtenstein, stýrði fundinum en Liechtenstein er í formennsku EES-ráðsins.

Jean-Pierre Joyet, var fulltrúi  ESB, en Frakkland sinnir nú formennsku í sambandinu. Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs sótti fundinn fyrir hönd Noregs. Ráðherrarnir ræddu framkvæmd EES-samningsins og það sem framundan er í samstarfinu. Þar má nefna viðræður um frekari framlög í þróunarsjóð EFTA, þátttöku í samstarfsáætlunum og stofnunum Evrópusambandsins auk orku- og loftslagsstefnu Evrópusambandsins sem skipar veigamikinn sess í starfsemi þess nú um stundir.

Einnig var rætt um málefni norðurslóða en Evrópusambandið vinnur nú að stefnu sinni á því sviði. Gerði umhverfisráðherra ítarlega grein fyrir helstu áherslum Íslands í málefnum tengdum norðurslóðum. Í tengslum við fund EES-ráðsins var að venju skipst á skoðunum um pólitísk málefni. Að þessu sinni var til umræðu Rússland og ástand mála í Afganistan og Zimbabwe.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert