Kyssir ekki á vönd kvalaranna

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segist ekki ætla að kyssa á vönd kvalara sinna.  Honum finnst fráleitt að Bretar sinni hér loftrýmiseftirliti í desember.

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að ekki sé hægt að bjóða Íslendingum upp á þetta. Það sé þverpólitísk samstaða um það á Alþingi að Bretar komi ekki hingað í þessum tilgangi en stjórnvöld ætli ekki að bregðast við. Það sé ekki hægt að skilja við málið afvelta. 

 Össur Skarphéðinsson segist hafa fylgt sannfæringu sinni eins og honum beri að gera. Hann hafi látið sannfæringu sína í ljós bæði sem starfandi utanríkisráðherra og nú.

Hvað er að gerast í Samfylkingunni, spurði Siv Friðleifsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins og vildi vita hvort verið væri að halda því fram að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra kyssti á vönd kvalara sinna. Tveir ráðherrar og samflokksmenn tali í austur og vestur í sama máli.

Össur Skarphéðinsson sagði að innan Samfylkingarinnar gengi enginn gruflandi að afstöðu hans í málinu, það væri óæskilegt og líklegt til að valda sárindum ef Bretar kæmu hingað.

Myndskeið frá MBL Sjónvarpi á leiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert