Báru fyrir sig bankaleynd

Frá fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun
Frá fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun mbl.is/Ómar Óskarsson

„Fulltrúar Landsbankans, þau Elín Sigfúsdóttir bankastjóri og Ásmundur Stefánsson, formaður bankaráðs lögðu fram skjal í upphafi fundarins þess efnis að þau teldu sig bundin af bankaleynd hvað varðar málefni einstaklinga. Þau vildu ekki tjá sig um hluti sem varða einstaklinga og viðskipti þeirra og það er þeirra að meta bankaleyndina,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar Alþingis.

Bankastjórar og bankaráðsformenn nýju ríkisbankanna, Landsbanka, Kaupþings og Glitnis komu á fund viðskiptanefndar í morgun. Staðan á íslenskum fjármálamarkaði var yfirskrift fundarins en ætlunin var líka að ræða samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og meinta lánveitingu bankanna vegna viðskipta með fjölmiðla.

Í kjölfar frétta af kaupum félags í eigu Jóns Ásgeir Jóhannessonar á 365 miðlum fyrir 1,5 milljarða króna, var því haldið fram að einn eða fleiri hinna nýju ríkisbanka hefðu fjármagnað kaupin að einhverju leyti. Formaður viðskiptanefndar lýsti því þá yfir að hann hefði áhyggjur af samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og mundi krefjast upplýsinga frá bankastjórunum um hvort ríkisbankarnir hefðu komið að viðskiptunum. Bankastjórarnir voru boðaðir á fund viðskiptanefndar í morgun.

Jón Ásgeir og lögmaður hans brugðust ókvæða við yfirlýsingum formanns viðskiptanefndar og hótuðu lögsókn ef hann héldi kröfu sinni til streitu. Í yfirlýsingu sem Jón Ásgeir sendi frá sér fullyrðir hann að fjármagn vegna kaupanna á 365 miðlum hafi ekki komið frá íslenskum banka.

Ágúst Ólafur fagnaði yfirlýsingu Jóns Ásgeirs og sagði jafnframt að hann hefði ekki áhuga á að hnýsast í veski Jóns Ásgeirs. Óskað væri eftir upplýsingum frá bankastjórum ríkisbankanna vegna hugsanlegrar samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði og aðkomu ríkisbankanna að henni.

„Ég spurði hvort þau hefðu haft einhverja aðkomu, annað hvort með lánveitingum eða öðrum ráðstöfunum sem hugsanlega gætu sett samkeppni á fjölmiðlamarkaði í uppnám. Þau svöruðu á þann veg að þau teldu sig ekki hafa brotið samkeppnislög en vildu ekki fara nánar út í það,“ segir Ágúst Ólafur. 

Hann segir það upplýsandi að bankinn telji sig bundinn af bankaleynd hvað þetta varðar. „Ég tel að samkeppnisyfirvöld verði því að vakta þennan markað og háttsemi og ákvarðanir bankanna, það er hlutverk eftirlitsins.“

Ágúst Ólafur segir að fulltrúar hinna bankanna, Kaupþings og Glitnis, hafi verið spurðir svipaðra spurninga um ráðstafanir sem gætu haft áhrif á samkeppnisstöðu.

„Allir sögðust ætla að vinna með Samkeppnsieftirlitinu og hafa tilmæli þess til hliðsjónar, um að ákvarðanferlið sé gegnsætt og að þeirra ákvarðanir skaði ekki samkeppni. Það er mjög jákvætt,“ segir formaður viðskiptanefndar Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert