Ný greiðslujöfnunarvísitala tekin upp

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, á …
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, kynntu á blaðamannafundi ýmsar ráðstafanir sem fyrirhugaðar eru til að létta undir með heimilum landsins. 

Til stendur að taka upp sérstaka greiðslujöfnunarvísitölu sem gerir það að verkum, að greiðslubyrði lækki um 10% 1. desember og allt að  20% eftir eitt ár. Með þessu móti frestast hluti af verðbótum þar til síðar á lánstímanum.

Þá hefur því verið beint til Íbúðalánasjóðs að koma til móts við fólk með ýmsu móti og einnig stendur til að lækka dráttarvexti og setja  þak á innheimtukostnað.  

Þá verður felld tímabundið niður heimild til að skuldbreyta barnabótum á móti opinberum gjöldum. Einnig er gert ráð fyrir að barnabætur verði greiddar út á mánaðarfresti í stað þriggja mánaða fresti eins og nú er.

Felld verður niður heimild til  að skuldbreyta vaxtabótum á móti afborgunum af lánum Íbúðalánasjóðs. Einnig verður stuðlað að mildari innheimtuaðgerðum gagnvart almenningi, m.a. með því að takmarka eins og kostur er það hlutfall launa, sem nota má til skuldajöfnunar. Það hlutfall er nú allt að 75%.

Tillögurnar, sem kynntar voru í dag, voru unnar af vinnuhópi ríkisstjórnarinnar. Í næsta pakka verða aðgerðir sem snúa að fyrirtækjum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert