ÍLS átti að fara í söludeildina eða sláturhúsið

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins og Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður flokksins.
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins og Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður flokksins. mbl.is/Kristinn

Formaður Framsóknarflokksins segir að aðeins hafi munað hársbreidd að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi fram vilja sínum við myndun ríkisstjórnar með Samfylkingunni um að færa Íbúðalánasjóð í fjármálaráðuneytið. Það hefði þýtt söludeild eða sláturhús. Framsóknarflokkurinn hefði í 12 ára samstarfi með Sjálfstæðisflokknum varið þennan mikilvæga sjóð.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hóf ræðu sína á nokkuð óvenjulegan hátt í upphafi miðstjórnarfundar í morgun. Hann bað fundinn að hylla fjóra menn, rísa úr sætum og klappa félagsmálaráðherrum Framsóknarflokksins síðustu tólf ár lof í lófa. Það eru þeir Páll Pétursson, Árni Magnússon, Jón Kristjánsson og Magnús Stefánsson.

Í 12 ára stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum fór Framsóknarflokkurinn með félagsmálaráðuneytið í ríkisstjórn. Þar með hélt hann utan um málefni Íbúðalánasjóðs.

„Framsóknarflokkurinn byggði upp þennan mikilvæga sjóð og ráðherrar flokksins mann fram af manni vörðu sjóðinn. Þeir neituðu að sjóðurinn yrði seldur inn í einkabankakerfið. Það hefur sýnt sig að festan hefur verið farsæl því engin stofnun á Íslandi býr við jafnmikla tiltrú og Íbúðalánasjóður fólksins. Við skulum líka hafa það á hreinu að það munaði hársbreidd að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi fram vilja sínum með Samfylkingunni við upphaf stjórnarsamstarfsins. Flokkarnir höfðu komið sér saman um að færa Íbúðalánasjóð í fjármálaráðuneytið, það þýðir í söludeildina eða sláturhúsið. Þar með áttu bankarnir að fá sjóðinn, eins og þeir gerðu kröfu um í okkar tíð og reyndu með 100% lánum að steypa honum árið 2004,“ sagði Guðni Ágústsson.

Guðni sagði gott fyrir framsóknarmenn, eftir árásir og gagnrýni, að rifja það upp að eftir alltof langt samstarf með Sjálfstæðisflokknum, átti flokkurinn líka prinsipp og staðfestu.

„Við myndun núverandi ríkisstjórnar, þar sem Samfylkingin kom inn, sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í Valhöll í september fyrir rúmu ári síðan; Að það hefði verið erfitt að fá aðra flokka til að styðja stefnu Sjálfstæðisflokksins um markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu og orkugeirans. Þarna sagði forsætisráðherra ykkur að við framsóknarmenn féllumst aldrei á últra hægri stefnu. Hann fagnaði Samfylkingunni sem samherja í harðari hægri stefnu en við féllumst nokkurn tímann á,“ sagði formaður Framsóknarflokksins og bætti við að félagshyggjufólk Framsóknarflokksisn hefði í allt of stórum stíl yfirgefið flokkinn. Nú væri verkefnið að opna flokkinn á ný fyrir þeim gildum sem gerðu flokkinn að sigursælum og stórum flokki.Kalla ætti til fólk  sem staðsetur sig báðum megin við miðju. Miðjan væri stór og græn, hún teygði arma sína bæði til vinstri og hægri, inn í bláan lit og rauðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert