Dagur íslenskrar tungu

Kolla, Þórdís og Sara úr Glerárskóla á Akureyri lesa ljóð …
Kolla, Þórdís og Sara úr Glerárskóla á Akureyri lesa ljóð fyrir gesti Glerártorgs á Akureyri á föstudaginn. mbl.is

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í dag, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Af því tilefni fer m.a. fram málræktarþing Íslenskrar málnefndar í hátíðarsal Háskóla Íslands, þar sem kynntar verða tillögur að íslenskri málstefnu sem Íslensk málnefnd hefur unnið að síðustu tvö ár. Nemendur grunnskóla landsins minntust Jónasar með ýmsu móti á föstudaginn, þessar ungu stúlkur úr Glerárskóla á Akureyri lásu t.d. ljóð fyrir gesti og gangandi í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri.


Guðrún Kvaran, formaður Íslenskrar málnefndar, segir málstefnuna taka saman stöðu íslenskunnar á ellefu sviðum sem eru mjög mikilvæg í þjóðlífinu. „Meginatriðið í málstefnunni er að það er afar mikilvægt að hægt sé að nota íslensku á öllum sviðum þjóðlífsins,“ segir hún í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.


Sviðin ellefu sem stefnan nær yfir eru: Íslenska í lögum, íslenska í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, íslenska í vísindum og fræðum, íslenska í fjölmiðlum, í listum, í tölvugeiranum, íslenska sem annað mál, íslenskukennsla erlendis, íslenska í viðskiptum og íslenska í háskólum sem Guðrún telur mjög mikilvægt svið. „Við teljum háskólann gríðarlega mikilvægan kafla því þaðan kemur fólkið sem fer að vinna á hinum fjölbreyttu sviðum þjóðlífsins og ef það getur ekki tjáð sig almennilega á íslensku missum við kannski einhver svið.“

„Margt bendir til þess að menn vilji fara meira yfir á ensku á þessum tveimur sviðum en kannski æskilegt er, á kostnað móðurmálsins. Það þarf líka að gæta að íslensku í fjölmiðlum,“ segir Guðrún en bætir við að íslenskan standi samt almennt sterkt. „En það þarf að vera á verði og hafa möguleika á að grípa inn í, ekki með valdboði, heldur meira til að breyta afstöðu og hugarfari á sumum sviðum og fylgjast með. Til þess er málstefnan mjög gagnleg, hægt er að fylgjast með því á hverju sviði fyrir sig hvort þarna sé eitthvað til að hafa áhyggjur af sem í hugsunarleysi getur haft alvarleg áhrif,“ segir Guðrún sem mun flytja erindið Tilurð íslenskrar málstefnu og vinna við hana í dag.

Hátíðardagskráin hefst í hátíðarsal Háskólans kl. 14 og stendur til 15.30. Þar flytur menntamálaráðherra ávarp og veitir verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Auk Guðrúnar flytur Haraldur Bernharðsson úr Íslenskri málnefnd erindið Megindrættir íslenskrar málstefnu. Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, ræðir um íslensku í tölvugeiranum. Skólakór Kársness syngur og tveir grunnskólanemar eru með upplestur.

Myndin af Jónasi

Jónasarfyrirlestur Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal verður fluttur í Þjóðmenningarhúsinu kl. 14 í dag. Í þetta skiptið er það Tryggvi Gíslason, magister og formaður Menningarfélagsins, sem flytur fyrirlesturinn Myndin af Jónasi Hallgrímssyni.

„Þetta er tvíþættur fyrirlestur hjá mér, annars vegar fjalla ég um þá mynd sem Íslendingar hafa í huga sér af Jónasi. Upphaflega var hann listaskáldið góða en síðan verður hann í huga margra drykkfelldur utangarðsmaður í lýsingu Halldórs Laxness. Það er því mikil breyting að vera listaskáldið góða árið 1845 og svo útigangsmaður 1929. En síðan hefur myndin að vísu breyst í huga fólks, meðal annars vegna ævisögu Jónasar eftir Pál Valsson sem kom út 1999,“ segir Tryggvi. „En meginuppistaða fyrirlestrarins er í rauninni ljósmyndin, sem ég kalla svo, af Jónasi. Í Listasafni Íslands hefur varðveist teikning eftir séra Helga Sigurðsson af Jónasi og færi ég rök fyrir því að hún sé eins konar ljósmynd gerð með teiknivél sem hét Camera Lucida. Svoleiðis að rúsínan í þessum fyrirlestri er kenning mín um það að varðveitt sé, sem ég leyfi mér að kalla, ljósmynd af Jónasi Hallgrímssyni.“

Einnig mun Tryggvi fjalla um teikningar, málverk og ýmis önnur myndverk sem hafa verið gerð af Jónasi.

Margt gert í tilefni dagsins

  • Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, hinn 16. nóvember, síðan árið 1996. Í dag er liðið 201 ár frá fæðingu Jónasar.
  • Á þessum degi veitir menntamálaráðherra Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og tvær viðurkenningar. Verðlaunin eru veitt einstaklingum sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu og riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun nýrrar kynslóðar. Auk þess er heimilt að veita stofnunum og fyrirtækjum sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu.
  • Meðal verðlaunahafa eru: Vilborg Dagbjartsdóttir, Þórarinn Eldjárn, Matthías Johannessen, Megas, Guðrún Helgadóttir og Sigurbjörn Einarsson.
  • Í Ráðhúsinu verða tónleikar í boði Reykjavíkurborgar kl. 13. Þar mun Fífilbrekkuhópurinn ásamt Gradualekór Langholtskirkju flytja vinsæl lög Atla Heimis Sveinssonar.
  • Í Þjóðmenningarhúsinu kl. 16 verður Lárusar Pálssonar, leikara og leikstjóra, minnst í tilefni af útkomu ævisögu hans eftir Þorvald Kristinsson. Sigurður Skúlason leikari les úr bókinni, Viðar Eggertsson fjallar um störf Lárusar í útvarpi og Gunnar Eyjólfsson leikari minnist hans.
  • Dagur Orðsins verður haldinn í þriðja sinn í Grafarvogskirkju. Sr. Friðriks Friðrikssonar verður minnst í tilefni af því að 140 ár eru liðin frá fæðingu hans. Minningarstund hófst í Hólavallagarði kl. 9. Þrjú erindi um Friðrik verða flutt í Grafarvogskirkju kl. 10-10.40. Messa hefst kl. 11 þar sem þrír kórar syngja sálma sr. Friðriks, m.a. Karlakórinn Fóstbræður.
  • Hljómsveitin Spilmenn Ríkínís flytur forna íslenska tónlist og leikur á gömul hljóðfæri á tónleikum í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, Engjateigi 1 kl. 15.
  • Í Listasafni Árnesinga í Hveragerði verður málþing til heiðurs Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu hans. Aðalsteinn Ingólfsson og Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingar ræða um list Sigurjóns í opinberu rými og alþjóðlegu samhengi. Málþingið hefst kl. 14.
  • Minningardagur verður haldinn á Hólum í Hjaltadal um séra Bolla Þóri Gústavsson víslubiskup, áður prest í Laufási. Guðsþjónusta hefst í Hóladómkirkju kl. 14. Að loknu kirkjukaffi hefst dagskrá í kirkjunni, þar sem Hjörtur Pálsson flytur erindi um sr. Bolla og Gerður Bolladóttir flytur nýtt tónverk eftir Önnu S. Þorvaldsdóttur við ljóðaflokkinn Almanaksljóð eftir föður sinn. Einnig verður frumflutt ný útsetning við ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Ég bið að heilsa.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert