Fá ekki upplýsingar um GSM-síma

mbl.is/Júlíus

Hæstiréttur hefur hafnað kröfu sýslumannsins á Selfossi um að Síminn afhendi upplýsingar um öll þau GSM-símtæki sem voru í notkun á Eyrarbakkavegi í 30 mínútur tiltekinn dag. Lögregla taldi nauðsynlegt að fá upplýsingarnar vegna rannsóknar á ofsaakstri ökumanns en hann komst undan. Héraðsdómur hafði áður fallist á beiðnina en Hæstiréttur sagði ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu koma í veg fyrir að verða mætti við kröfu sýslumanns.

Sýslumaðurinn á Selfossi krafðist upplýsinga yfir öll þau GSM símtæki sem voru notuð á tímabilinu frá kl. 16:00, miðvikudaginn 5. nóvember til kl. 16:30 þann sama dag á Eyrarbakkavegi, vestan Óseyrarbrúar, Ölfusi.

Þann dag höfðu lögreglumenn í eftirlitsferð á Eyrarbakkavegi, mætt tveimur ökutækjum á ofsahraða.  Mældist hraði fyrra ökutækisins 212 kílómetrar á klukkustund og þess seinna 192 kílómetrar á klukkustund.

Lögreglan hóf eftirför og náði fljótlega seinna ökutækinu en ökumaður fyrri bifreiðarinnar slapp á ofsahraða. Lögreglumenn töldu sig hafa séð ökumann tala í síma þegar hann mætti lögreglubílnum.

Lögregla telur að umræddur ökumaður hafi valdið stórhættu í umferðinni, en þó nokkur umferð var á Eyrarbakkavegi. Því sé nauðsynlegt að fá upplýsingar um GSM-notkun á umræddu tímabili til að upplýsa málið, en um er að ræða einhvern mesta hraða sem mældur hefur verið hjá lögreglunni í Árnessýslu.

Rannsókn hefur litlu skilað en lögregla telur ljóst að um sérlega alvarlegt brot sé að ræða, sem að lögum geti varðað allt að 2 ára fangelsi. Því séu mikilvægir almannahagsmunir fyrir því að upplýsa málið.

Héraðsdómur Suðurlands féllst á rök sýslumannsins á Selfossi en Hæstiréttur var á öndverðum meiði og hafnaði kröfunni.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skuli allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þó sé heimilt að víkja frá ákvæðinu ef rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hafi verið notað í tengslum við refsivert brot. Krafa sýslumanns beinist ekki að tilteknum síma eða fjarskiptatæki heldur beinist hún að því að veittar verði upplýsingar um öll þau GSM-símtæki sem notuðu voru á tilteknum tíma. Því beri að hafna kröfunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert