Hvetur starfsfólk VB til atvinnuleitar

mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Haraldur Flosi Tryggvason, framvæmdastjóri Viðskiptablaðsins hvetur starfsfólk sitt til að huga nú þegar að atvinnuleit. Í bréfi sem hann sendi starfsfólki í morgun segir að allar líkur séu til þess að Framtíðarsýn hf., sem gefur út Viðskiptablaðið, muni leggja niður rekstur fljótlega. Greiðslustöðvun Framtíðarsýnar rennur út um mánaðamót. Starfsmannafundur var boðaður í hádeginu.

Í bréfi Haraldar Flosa til starfsmanna segist hann því miður ekki geta verið viðstaddur starfsmannafundinn í hádeginu en ritstjóri blaðsins muni þar fara yfir skipulag vinnu næstu daga.

Síðar segir í bréfinu;

„Lítið hefur breyst frá því í síðustu viku. Enn er leitað leiða til að koma eignum í verð og tryggja sem mestar launagreiðslur. Líkt og fram hefur komið þá verða laun að öllum líkindum greidd um næstu mánaðarmót a.m.k. að langmestu leiti. Afar ótryggt er um frekari launagreiðslur miðað við stöðu rekstrarins.

Í ljósi þessa vil ég árétta að það er full alvara á bakvið greiðslustöðvun og uppsagnir, allar líkur eru til þess að Framtíðarsýn hf. muni leggja niður rekstur fljótlega – þó leitað sé leiða til að tryggja áframhaldandi útgáfu í einhverri mynd. Því vil ég eindregið hvetja alla til þess að fara nú þegar að huga að atvinnuleit,“ segir í bréfi framkvæmdastjóra Viðskiptablaðsins til starfsmanna.

Haraldur Flosi segir að eins og staðan er nú, þá hljóti að vera ábyrgðarhlutur að tryggja að allir átti sig á raunverulegri stöðu mála og hefjist þegar handa um að bjarga eigin hagsmunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert