Læri af mistökum Færeyinga

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja á …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Kristinn

Íslendingar geta lært það af bankakreppunni í Færeyjum að leggja ekki of miklar álögur á fólkið í landinu því það geti leitt til fólksflótta frá landinu, sagði utanríkisráðherra Færeyja á fundi með blaðamönnum í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Hann segir það hafa verið sjálfsagt að rétta Íslendingum hjálparhönd nú, enda hafi Íslendingar stutt við bakið á Færeyingum í þeirra bankakreppu á 10. áratugnum.

Fundurinn var sameiginlegur fundur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra og Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja. Ingibjörg þakkaði þann vinskap sem fólst í lánveitingu Færeyinga til Íslendinga á dögunum.

Hún sagði að ráðherrarnir hefðu farið yfir ýmis mál á fundi sínum í dag, m.a. fjármálakreppuna hér og Hoyvíkursamninginn svonefnda, fríverslunarsamning Íslands og Færeyja. Þá hefði innflutningur á færeyskum landbúnaðarvörum verið til umræðu, samstarf landanna á sviði heilbrigðismála, auknar loðnuheimildir Færeyinga hér við land og Hatton Rockall málin, þar sem löndin tvö ættu talsverða sameiginlega hagsmuni gagnvart Bretum og Írum. Þá hafi umsókn Færeyja að EFTA verið rædd sem íslensk stjórnvöld væru jákvæð gagnvart.

Jørgen Niclasen sagði Ísland stóra bróður Færeyja en þjóðirnar tvær ættu fjölmargt sameiginlegt. Þar hefði Ísland yfirleitt gengið á undan, s.s. í utanríkismálum en í einu tilfelli hefðu Færeyjar verið á undan, þ.e. í bankakreppunni, sem reið yfir Færeyjar snemma á 10. áratugnum. Þá hafi landið fengið þýðingarmikla kvóta við Ísland og því hafi það verið eðlilegt að rétta Íslandi hjálparhönd nú þegar landið er í fjármálakreppu.

Ráðherrann var spurður að því hversu stórt hlutfall af þjóðarframleiðslu Færeyinga lánið væri, sem veitt var Íslendingum á dögunum. Sagði hann þjóðarframleiðslu Færeyinga vera 12 milljarða danskar krónur og lánið væri upp á 300 milljónir danskar krónur. Inntur eftir því hvort þeir óttuðust ekki að fá ekki borgað sagði hann að menn gætu ekki verið vissir um nokkuð þessa dagana. „Við höfum hins vegar farið í gegn um sambærilega bankakreppu og það tók okkur átta ár að komast á sama stað og við vorum fyrir hana. Við erum fólk af sama tagi svo ég er sannfærður um að Íslendingar muni komast yfir þessa kreppu nú og að lánið verði borgað aftur."

Hann benti á að í bankakreppunni í Færeyjum hefði atvinnuleysi farið upp í 25%. Íslendingar gætu lært af þeim mistökum, að leggja of miklar álögur á samfélagið en það hafi orðið til þess að kreppan varð dýpri en ella. Það leiddi aftur til þess að 15% af fólkinu fluttist frá landinu. „Það tók tíu ár áður en við vorum orðin jafn mörg og við vorum áður en kreppan dundi yfir," sagði hann. Bjartsýnin hafi hins vegar komið Færeyingum yfir kreppuna og hann væri viss um að bjartsýnin eigi líka eftir að koma Íslendingum í gegn um kreppuna hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert