Ákvörðun um sameiningu tekin fljótt

Ágúst Ólafur Ágústsson, alþingismaður.
Ágúst Ólafur Ágústsson, alþingismaður. mbl.is/Ómar

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingar, segir pólítískan vilja til að skoða hugmyndir um að sameina Seðlabanka og Fjármálaeftirlit á ný. Hann á von á því að ákvörðun um málið verði tekin hratt.

Ágúst bendir á að hugmyndin hafi komið upp í ræðu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í gær og eftir yfirlýsingar Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Lúðvíks Bergvinssonar, formanns þingflokks Samfylkingarinnar, virðist ljóst að pólítískur vilji sé fyrir sameiningunni. „Það er í öllu falli vilji til að skoða þetta til að styrkja hér eftirlitsþáttinn," segir Ágúst. „Atburðir undanfarinna vikna sýna að það þarf að styrkja eftirlit með fjármálastofnunum."

Í samtali við Morgunblaðið í dag lagði Lúðvík á það áherslu að af sameiningunni yrði áður en krónunni yrði hleypt á flot, en til stendur að það verði fyrir áramót. „Allt í þessu ferli þarf að gerast hratt," segir Ágúst. „Auðvitað hefur maður áhyggjur af því hvað gerist þegar krónunni verður hleypt á flot og hugsanlega getur verið skynsamlegt að ljúka svona aðgerðum áður en það gerist."

Lúðvík verður einnig tíðrætt um skort á trausti á forystu Seðlabankans. En sjá menn þá í þessari sameiningu tækifæri til að endurnýja yfirstjórnina þar? „Það hefur ekki beinlínis verið rætt á þeim nótum," segir Ágúst. „En auðvitað er vitað mál að núverandi bankastjóri nýtur ekki trausts." Hins vegar sé markmið sameiningar stofnananna fyrst og fremst að styrkja stjórnkerfið og eftirlitsþáttinn. „Þetta er ekki gert í neinum annarlegum tilgangi."

Lagabreytingu þarf til að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið en Ágúst segir að slík lagasmíð og –samþykkt ætti að geta gengið greitt fyrir sig. Hins vegar sé ekki búið að taka ákvörðun þar um. „En ég á von á því að menn taki þessa ákvörðun hratt og fljótt."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert