Líkur á aukinni makrílgengd

Makríll hefur veiðst í talsverðum mæli á Íslandsmiðum undanfarið.
Makríll hefur veiðst í talsverðum mæli á Íslandsmiðum undanfarið. Líney Sigurðardóttir

Íslensk stjórnvöld eru bjartsýn á að Íslandi verði boðið að samningaborðinu þegar samið verður um stjórn makrílveiða á næsta ári, þannig að Ísland verði aðili að strandríkjasamkomulagi því sem ESB, Noregur og Færeyjar standa að. Þetta kemur fram í Andrá, vefriti um sjávarútveg og landbúnað.

Í vefritinu, sem gefið er út af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, er grein um makrílveiðar Íslendinga. Þar er fjallað um tregðu ríkja innan Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) við að viðurkenna með formlegum hætti að makríll veiðist nú í íslenskri lögsögu og að veita Íslendingum eðlilegan kvóta í samræmi við það.   

„Undanfarin ár hafa hin strandríkin dregið í efa magn makríls innan íslensku lögsögunnar og talið að íslensk stjórnvöld þurfi að sanna með afgerandi hætti að makríl sé að finna í verulega veiðanlegu magni. Árið 2007 veiddu íslensk skip rúm 30 þús. tonn og í ár voru veiðarnar rúm 100 þús. tonn. Það er því ljóst að makríll er innan íslenskrar lögsögu og jafnframt að magn hans hefur aukist undanfarin ár. Töluverðar líkur eru á að sú aukning haldi áfram í ljósi hlýnunar sjávar. Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur Íslandi verið neitað um að taka þátt í samningaviðræðum strandríkja um stjórn makrílveiða.

Gildandi samkomulag um stjórn makrílveiða nær til úthafsins á samningssvæði NEAFC og lögsögu Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja. Veiðar íslenskra skipa hafa nær undantekningalaust verið utan þess svæðis sem samkomulagið nær til. Þegar veiðarnar færðust út fyrir lögsögu setti Ísland sér einhliða kvóta á úthafinu í samræmi við reglur NEAFC. Ísland er í fullum rétti að nýta auðlind sem er innan efnahagslögsögu landsins og halda öðru fram er því í þversögn við alþjóðalög. Hins vegar fylgir þeim rétti að nýta sameigin-lega auðlind, sú skylda að ríki leitist eftir samvinnu við önnur strandríki. Ísland hefur óskað eftir slíkri samvinnu um árabil en þeirri beiðni hefur verið hafnað ítrekað af hinum strandríkjunum,“ segir m.a. í grein Andrár.

Í greininni kemur einnig fram að íslenskum skipstjórum standi tveir aðrir kostir til boða í stöðunni. Það er að hætta síldveiðum til að forðast veiðar á makríl eða henda makrílaflanum í sjóinn aftur. „Brottkast er lögbrot á Íslandi þó að það sé hins vegar beinlínis skylda í ýmsum veiðum innan ESB,“ segir í greininni í Andrá.

Andrá, vefrit sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert