Icelandair gerir breytingar á fargjaldaflokkum

Vél Icelandair yfir Reykjavíkurflugvelli.
Vél Icelandair yfir Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair vinnur nú að því að gera breytingar á fargjaldaflokkum og ferðaskilmálum vegna stöðunnar í gengismálum. „Það veldur því að sum fargjöld lækka og önnur hækka. Heilt yfir er þetta frekar til hækkunar,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

„Það er verið að taka tillit til þessara miklu breytinga í gengi krónunnar og að samræma fargjöld milli landa. Og gera breytingar á fargjaldaflokkum og skilamálum,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is.

Hann segir að nú verði tekið meira tillit til gengisþróunar en verið hafi. Aðspurður hvor einhverjar ákveðnar leiðir muni hækka frekar heldur en aðrar segist Guðjón ekki geta sagt neitt til um það.

Þessar breytingar þýða hins vegar ekki að nú muni Icelandair fara að rukka fyrir ferðirnar í erlendum gjaldmiðlum, s.s. evrum. „Við notum íslensku krónuna áfram, en við að fara taka meira tillit til þróunarinnar svona í ljósi aðstæðna.“

Spurður í það hvort breytinga sé að vænta á flugleiðum, t.d. hvort flugferðum verði fækkað, segir Guðjón svo ekki vera. 

Töluverður samdráttur hefur orðið á milli ára hjá Icelandair sé miðað við síðasta vetur. Samdrátturinn nemur um 20%.

Icelandair hefur hins vegar unnið markvisst að því að fá fleiri erlenda ferðamenn til að koma til landsins í því árferði sem nú ríkir og að sögn Guðjóns hefur það starf gengið ágætlega. „Við lögðum mikla vinnu í það að beina athygli fjölmiðla að ferðaþjónustunni og þeim möguleikum sem felast í þessum breytingum. Ég held að á öllum okkar markaðssvæðum hafi orðið aukning í bókunum og ferðafjölda miðað við síðasta vetur,“ segir Guðjón Arngrímsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert