IMF samþykkir lán til Íslands

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF)   samþykkti seint í kvöld beiðni Íslands um lán að andvirði 2,1 milljarðs Bandaríkjadala og áætlun um að koma á efnahagsstöðugleika hér á landi. Að auki fær Ísland viðbótarlán, allt að þremur milljörðum Bandaríkjadala, frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, Rússlandi og Póllandi. Að auki hafa Færeyingar boðið Íslendingum lán sem nemur um 50 milljónum Bandaríkjadala. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ríkisstjórn Íslands.

Í fréttatilkynningunni segir ennfremur: „Áætlunin er til tveggja ára. Gert er ráð fyrir að fyrsti hluti láns sjóðsins, 827 milljónir Bandaríkjadala, verði veittur eftir nokkra daga og síðan í átta jöfnum áföngum, um 155 milljónir Bandaríkjadala hvert sinn, á þriggja mánaða fresti. Lánið frá sjóðnum verður greitt til baka á árunum 2012 til 2015.

Fjármunirnir sem fást fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verða notaðir til að styrkja krónuna og verður hún sett á flot um leið og stuðningur við hana verður talinn nægilegur til þess. Þess er að vænta að gjaldeyrisviðskipti færist þá fljótlega í eðlilegt horf og milliríkjaviðskipti fari að ganga hnökralaust fyrir sig.

Ríkisstjórn Íslands fagnar niðurstöðu stjórnar sjóðsins.

Geir H. Haarde forsætisráðherra: „Þetta er áfangi sem við höfum beðið eftir í nokkurn tíma. Ég tel hann mikilvægt skref í átt til uppbyggingar á öllum sviðum efnahagslífsins, sem nú er hafin af fullum krafti. Ég er afar þakklátur þeim þjóðum sem leggja okkur lið í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Verkefni okkar er að vinna bug á þeim vanda sem við okkur blasir og að Ísland öðlist aftur þann sess meðal þjóða sem hún hafði áður en fjármálakreppan skall á," segir Geir H. Haarde.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra: „Við metum mikils ákvörðun Alþjóða­gjald­eyrissjóðsins og það traust til Íslands sem í henni felst. Aðkoma IMF að endurreisn íslensks efnahagslífs er afar mikilvæg. Hún gefur okkur fast land undir fætur og leggur um leið grunn að þeim trúverðugleika sem nauðsynlegur er til að endurreisa ábyrgt íslenskt hagkerfi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert