Íslendingasögurnar 1 ár og 7 mánuði á leiðinni til Clintons

Jón Baldvin Hannibalsson afhendir Bill Clinton Íslendingasögurnar í Hvíta húsinu …
Jón Baldvin Hannibalsson afhendir Bill Clinton Íslendingasögurnar í Hvíta húsinu í október 1999. mynd/Hvíta húsið

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sendi  í mars árið 1998 tvö innbundin eintök af Íslendingasögunum á ensku, til íslenska sendiráðsins í Washington með óskum um að þær yrðu færðar Bill Clinton og Al Gore, þáverandi forseta og varaforseta Bandaríkjanna, að gjöf.

Fram kemur í bókinni Saga af forseta, að eitt ár og 7 mánuði tók að koma bókunum til skila. Segir í bókinni að sú saga lýsi líklega sambandi Ólafs Ragnars við Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi sendiherra í Washington.

Í bókinni segir, að þetta sumar hafi þeir Ólafur Ragnar og Jón Baldvin rætt saman í síma og þá sagðist sendiherrann hafa komið bréfum, sem fylgdu með bókunum, til skila en nokkur vandkvæði væru á að koma bókunum inn í Hvíta húsið og þær væru því enn í sendiráðinu.

Síðan leið og beið og þegar komið var fram á sumarið 1999 barst forsetaembættinu njósn af því að bækurnar væru enn uppi á hillu í sendiráðinu og rykféllu þar. Sendi forsetaskrifstofan fyrirspurn um málið til sendiráðsins. Frá Jóni Baldvin barst þá löng greinargerð þar sem hann lýsti öllum þeim vandkvæðum sem komið hefðu upp við að reyna að koma bókunum í réttar hendur.  

Ólafur Ragnar svaraði með bréfi þar sem m.a. sagði að málið veki upp alvarlegar spurningar um traust og trúnað, sem þurfi að ríkja milli embættis forseta Íslands og utanríkisþjónustunnar.

Í bréfinu eru síðan rakin samskipti forsetaembættisins við bandaríska sendiráðið eftir að Jón Baldvin var skipaður sendiherra. Forsetaembættið hljóti að álykta, uns annað komi fram, að frá og með þeim breytingum sem orðið hafi á yfirstjórn sendiráðsins í Washington skorti sendiráðið annaðhvort getu eða vilja til að sinna erindum, sem snerti forseta Íslands í Bandaríkjunum.

„Næst gerist það hinsvegar í bókamálinu að Jón Baldvin sendiherra gekk á fund Clintons Bandaríkjaforseta 5. október 1999 og afhenti honum viðhafnarútgáfu Íslendingasagnanna að gjöf frá forseta Íslands. Var þá liðið eitt ár og sjö mánuðir frá því Ólafur Ragnar afhenti ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins bækurnar. Nokkrum dögum síðar birtist fjórdálka mynd af Jóni Baldvin og Clinton á baksíðu Morgunblaðsins. Í meðfylgjandi frétt sagði að Jón Baldvin hefði afhent Clinton Íslendingasögurnar að gjöf og var helst að skilja á fréttinni að Jón sjálfur væri gefandinn. Ekkert var minnst á forseta Íslands í fréttinni og hafði þó Morgunblaðið greint ýtarlega frá því á sínum tíma þegar utanríkisráðuneytið tók við gjöfinni á Bessastöðum," segir í Sögunni af forseta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert