Dularfullar njósnir í London

Gunnar Friðriksson.
Gunnar Friðriksson. mbl.is/RAX

Bók Guðjóns Friðrikssonar Saga af forseta, um forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, er líkleg til að vekja mikla athygli vegna frásagna af samskiptum forsetans, Ólafs Ragnars Grímssonar, og þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Odssonar. Ekki síst mun sérstök bréfasending Davíðs til Ólafs Ragnars um meinta ágalla á hjónavígslu Ólafs Ragnars og Dorritar á Bessastöðum vekja athygli en bréfið er birt í bókinni.

„Bréfið frá Davíð til Ólafs Ragnars er afskaplega sérkennilegt svo ekki sé meira sagt,“ segir Guðjón. „Þar er beinlínis vegið að heiðri forsetans og ekki síst forsetafrúarinnar. Ég býst við að þetta bréf komi lesendum á óvart því það hefur ekki farið hátt. Það lítur út fyrir að settar hafi verið af stað einhvers konar njósnir um feril Dorritar í London til að koma höggi á forsetann. Dorrit fékk upphringingar í London þar sem henni var sagt að spurst hefði verið fyrir um hana. Vitneskjan, sem grundvallaðist á þessari njósn í London, var augljóslega fyrir hendi í forsætisráðuneytinu og Davíð virðist hafa gert tilraun til að koma höggi á forsetann og gera hann að athlægi á grundvelli meints ólöglegs hjónabands. Sú túlkun var þó byggð á fullkomnum misskilningi eins og kemur fram í bókinni.“

Davíð fyrirlítur forsetann

Í bókinni kemur margoft fram andúð Davíðs á Ólafi Ragnari og reyndar er Davíð þar í hlutverki vonda mannsins. Hvað viltu segja um það?

„Það er greinilegt að Davíð Oddsson fyrirlítur forsetann. Ég nefni í bókinni að mér finnst stíll og skapferli hans sem valdsmanns vera mjög svipað og hjá öðrum stjórnmálamanni fyrr á öldinni sem ég skrifaði reyndar þriggja binda verk um. Sá er Jónas frá Hriflu. Slíkir menn skipta fólki upp í vina- og óvinalið. Þeir vilja hafa fullkomið vald og hlýðni og ef menn hlýða ekki eru þeir miskunnarlaust settir út af sakramentinu. Slíkir menn verða gríðarlega umdeildir. Ólafur Ragnar er auðvitað fyrirferðarmikil persóna þannig að það var kannski ekki von á góðu þegar tvö svona stórveldi mættust.“

Eftir lesturinn veit maður hvernig Davíð hugsar til forsetans en er ekki alveg jafn viss um hugsanir forsetans til Davíðs.

„Ég held að Davíð og Ólafur Ragnar séu ólíkir að því leyti að Davíð virðist vera langrækinn maður meðan Ólafur er manna sáttfúsastur. Ég held að Ólafur Ragnar erfi ekki við fólk þótt eitthvað hafi skorist í odda.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert