Björn: Fjölmiðlar marklausir við núverandi aðstæður

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir að ummæli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í yfirlýsingu í gær, þar sem hann furðar sig á því að  í Morgunblaðinu skuli birtast eitthvað um viðskipti hans, sem hann segi falla undir bankaleynd, sýni að hann leyfi ekki að fjölmiðlar í hans eigu segi fréttir af því, sem að hans mati fellur undir bankaleynd.

Segir Björn, að þessi afstaða Jóns Ásgeirs geri fjölmiðlana í raun marklausa við núverandi aðstæður.

„Raunar er almennt ástæða til að undrast, að fjölmiðlamenn skuli ekki taka undir sjónarmið okkar, sem viljum að bankaleynd sé aflétt, svo að aðgangur að upplýsingum sé greiður og opinn. Kvartanir um skort á upplýsingum hafa verið háværar, en þær eru að sjálfsögðu ekki veittar, ef menn telja sig bundna af þagnarskyldu um það, sem upplýsa þarf," segir Björn.

Hann vísar í ræðu sína á Alþingi í síðustu viku þegar hann mælti fyrir frumvarpi um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins. Þar sagði Björn:

„[V]erkaskipting milli fjármálaeftirlits og lögreglu hefur bæði kosti og galla. Víst er að málsmeðferð fyrir stjórnsýslueftirlitsaðila getur verið skilvirkari og kostnaðarminni en fyrir refsivörsluaðilum. Hins vegar tel ég að menn verði að gæta þess að aðgangur almennings sé jafn opinn að þessum stjórnsýslumálum eins og í refsimálunum. Ég tel ekki ásættanlegt að þau mál, sem upp koma vegna bankakreppunnar, sem fjármálaeftirlitið rannsakar og lýkur innan sinna vébanda, séu sveipuð leyndarhjúp. Þau mál verða að vera á borðinu rétt eins og refsimál, verði um þau að ræða. Almenningur á kröfu á að vita ef lög voru brotin í aðdraganda hrunsins eða í kjölfar þess. Hugtök eins og þagnarskylda og bankaleynd eiga að heyra sögunni til þegar jafn mikilvægir hagsmunir eru í húfi og nú er.“

Grein Björns

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert