Meirihluti telur álver hafa jákvæð áhrif á efnahagslífið

Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.
Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.

Rúmlega 78%  landsmanna telja að álver hafi frekar eða mjög jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Rúmlega átta prósent telja áhrifin frekar eða mjög neikvæð. Þetta kemur fram í  niðurstöðum landskönnunar sem Capacent Gallup gerði í október fyrir Alcoa Fjarðaál.

Í könnuninni kemur fram að rúmlega 59% þátttakenda  eru mjög eða frekar jákvæð gagnvart Fjarðaáli í Reyðarfirði. Þetta hlutfall var 55,1% í byrjun árs 2005.

Landsmenn eru nú almennt jákvæðari gagnvart byggingu álvera en þeir voru fyrir tveimur árum. Tæp 49% landsmanna eru nú frekar eða mjög jákvæð gagnvart byggingu álvera og hefur þeim fjölgað um 8 prósentur á tveimur árum. Rúmlega 32% landsmanna eru hins vegar frekar eða mjög neikvæð gagnvart byggingu álvera og hefur þeim fækkað um 6 prósentur frá 2006.
 
Tæplega 90% íbúa á Mið-Austurlandi telja að álver Alcoa á Reyðarfirði hafi haft frekar eða mjög jákvæð áhrif á búsetuskilyrði á Austurlandi og yfir 95% íbúanna eru ánægð með að búa á þessu landssvæði. Sextíu og sex prósent íbúanna eru ánægð með þá þjónustu sem er í boði á svæðinu, en af þeim sem eru óánægðir með þjónustuna vilja 34,3% aukna verslunarmöguleika, 26,9% fjölbreyttari þjónustu, 21,5% aukna afþreyingu og 18,1% betri samgöngur.

Á Norðurlandi eystra hefur þeim fjölgað um 11,1 prósentu sem eru frekar eða mjög hlynntir byggingu álvers á Bakka miðað við könnunina, sem gerð var um mánaðamótin október-nóvember 2006. Á svæðinu eru nú 69,3% íbúanna hlynnt byggingu álversins.

Þá telur 81% íbúa á Norðurlandi eystra að ef af byggingu álvers á Bakka verður muni það hafa frekar eða mjög jákvæð áhrif á búsetuskilyrði á Norðurlandi.
 
Um var að ræða þrjár síma- og netkannanir, gerðar á tímabilinu september til nóvember og var markmið þeirra  að athuga viðhorf fólks til Alcoa, áliðnaðarins á Íslandi og álversframkvæmda.
 
Í úrtaki landskönnunarinnar voru 2386 einstaklingar á aldrinum 16-75 ára sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá frá öllu landinu. Svarhlutfall í könnuninni var 65%. Í úrtaki könnunar meðal íbúa á Mið-Austurlandi var 1491 einstaklingur á aldrinum 16-75, valinn af handahófi úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 62%. Í úrtaki könnunar meðal íbúa á Norðurlandi eystra var 2185 einstaklingar á aldrinum 16-75, valdir af handahófi úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 65,6%.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert