Var ekki látinn vita

Boðunarfrestur á ekki við um afplánun vararefsingar.
Boðunarfrestur á ekki við um afplánun vararefsingar. Mbl.is/Júlíus

Mistök starfsmanna Innheimtumiðstöðvar sekta og sakakostnaðar ollu því að mótmælandinn, sem handtekinn var á föstudag, var ekki látinn vita líkt og lög gera ráð fyrir. Kemur þetta fram í yfirlýsingu sem Innheimtumiðstöð sekta og sakakostnaðar sendi fjölmiðlum í dag.  

Í yfirlýsingunni kemur fram að Innheimtumiðstöðin hafi lýst eftir viðkomandi einstaklingi til handtöku  11. nóvember s.l. í miðlægu kerfi lögreglunnar vegna afplánunar vararefsingar, en hvorki hafði verið greitt eða samið um eftirstandandi sekt. Umræddur aðili hafi fyrir mistök starfsmanna innheimtumiðstöðvarinnar ekki verið boðaður að nýju til afplánunar, en fram skuli tekið að ferill þessa máls sé einsdæmi hvað varðar að færa menn til afplánunar að nýju eftir að hafa afplánað vararefsingu að hluta.

„Þess má þó geta að þriggja vikna boðunarfrestur á við um afplánun óskilorðsbundinna dóma en ekki afplánun vararefsingar, sbr. 10. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005,“ segir í tilkynningunni.  

Mótmælandinn hafi hafið afplánun vararefsingar vegna tveggja sektardóma í ágústmánuði 2007 eins og  áður hafi komið fram. Vegna plássleysis í fangelsum ríkisins hafi hins vegar þurft að vísa honum frá eftir að hafa afplánað vararefsingu annars dómsins og þá gert ráð fyrir að hann afplánaði hinn dóminn síðar.

Tilviljun hafi síðan ráðið því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af umræddum manni daginn fyrir boðuð mótmæli á Austurvelli í gær og hafi þá komið í ljós að fyrrgreind handtökuskipun lá fyrir í lögreglukerfinu og var hann því handtekinn.

„Innheimtumiðstöðin vill því leggja áherslu á að handtaka þessa manns hefur ekkert með boðuð mótmæli að gera. Honum var gefinn kostur á því strax við handtöku á föstudaginn að greiða sektina og komast þannig hjá afplánun vararefsingarinnar,“ segir í yfirlýsingunni.

150 einstaklingar hafi á síðustu fjórum vikum verið eftirlýstir í handtöku vegna afplánunar vararefsingar sekta. Sjö þeirra hafi verið  handteknir og færðir til afplánunar í síðustu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert