Hefur almenning ekki með sér

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, mælir fyrir vantrauststillögunni í dag.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, mælir fyrir vantrauststillögunni í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts og hefur almenning ekki með sér. Hún er sundurþykk og hefur gerst sek um mikið aðgerðaleysi. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, þegar hann mælti fyrir vantrauststillögu á ríkisstjórnina á Alþingi í dag. 

Formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna leggja tillöguna fram og lagði Steingrímur áherslu á að ný ríkisstjórn og ný andlit verði að leiða uppbyggingarstarfsemina. Þjóðin treysti ekki þeim sem komu henni á kaldan klaka til að gera það. 

Steingrímur rifjaði upp ummæli ráðherra frá því fyrr á árinu og minnti á að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefði sagt í mars að botninum væri náð. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hefði sagt í lok ágúst að hér á landi væri engin kreppa. Eina spilið þeirra væri núna að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Alvarlegast sagði Steingrímur vera þær miklu skuldir sem þjóðinni verður steypt í. Kostnaður við fyrirhugaðar lántökur verði gríðarlegur sem og kostnaður vegna Icesave-deilunnar. Þá sagði Steingrímur Samfylkinguna eiga Íslandsmet ef ekki heimsmet í óábyrgum málflutningi stjórnarflokks. 

Spurði Steingrímur hvað menn óttuðust við kosningar. Lýðræðið væri besta leiðin til að takast á við stöðuna í dag. „Við hvað eru menn hræddir?“ spurði Steingrímur og minnti á að allt vald sprytti frá þjóðinni. Það væri því hennar að taka ákvörðun um kosningar.

 Umræðurnar eru í beinni útsendingu í sjónvarpinu og á Rás2 og gert er ráð fyrir atkvæðagreiðslu í krinum 18:30.

Útsending frá umræðu um vantraust á ríkisstjórn 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert