Við verðum að fá að kjósa

Sex ráðherrar ríkisstjórnar mættu á borgarafundinn.
Sex ráðherrar ríkisstjórnar mættu á borgarafundinn. Morgunblaðið/ Golli

Það er ekkert skilyrði að við verðum að bíða í tvö og hálft ár eftir þingkosningum, sagði Silja Bára Ómarsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur í máli sínu á borgarafundinum. Stjórnin sé rúin trausti og vegna þeirra gífurlegu breytingar sem orðið hafa á stuttum tíma sé umboðið sem þjóðin veitti fyrir átján mánuðum einfaldlega ekki ennþá gilt. Víða erlendis hafi ríkisstjórnir slitið samstarfi að minna tilefni.

Hún kallaði enn fremur eftir auknu upplýsingaflæði frá stjórnvöldum og sagði almenningi treystandi til að kjósa. Fólk vilji láta hlusta á sig og taka mark á sér. En ef að friðsamleg mótmæli virki ekki þá hætti þau að vera friðsamleg og aðgerðir verði grófari. Fólki þyrsti í breytingar - í nýtt Ísland.

 „Við viljum sjá að stjórnvöld séu að hlusta á okkur og að þau séu tilbúin að taka þátt í því með okkur að byggja eitthvað nýtt úr rústunum. Að þau muni að þau eru að vinna fyrir okkur,“ sagði Silja. Þörf sé á nýjum samfélagssáttmála og kosningar séu hluti af þeirri gagnrýni sem þjóðin þurfi að fá að sýna.  „Við verðum að fá að kjósa,“ sagði Silja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert