Stóra viðræðunefnd SGS kölluð til fundar

Stóra viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur verið boðuð til fundar með Launanefnd sveitarfélaga í húsakynnum sáttasemjara í fyrramálið. Launanefndin kynnti í dag tilboð sitt til SGS. Þar er gert ráð fyrir rúmlega 20 þúsund króna hækkun taxtalauna og framlagi í endurhæfingarsjóð. Samningstíminn er hins vegar það sem út af stendur.

Samningar stéttarfélaganna við sveitarfélög renna út 30. nóvember og segist Signý Jóhannesdóttir, sviðsstjóri sviðs starfsmanna ríkis og sveitarfélaga hjá SGS hæfilega bjartsýn um að hægt verði að ganga frá nýjum samningi á næstu dögum.

„Komi ekkert sérstakt upp á þá ættum við að geta skrifað undir nýjan samning áður en núgildandi samningur rennur út á sunnudag,“ segir Signý Jóhannesdóttir.

Hún segist ekki vilja úttala sig um tilboð Launanefndar sveitarfélaga fyrr en það hefur verið kynnt félagsmönnum.

Viðræðunefnd starfsgreinasambandsins, þ.e.a.s. þau félög sem hafa falið sambandinu samningsumboð, hittist klukkan 9 í fyrramálið til að fara yfir tilboð Launanefndar sveitarfélaga.

Allmörg félög ákváðu að sjá sjálf um samningsgerðina, þeirra á meðal Afl - Starfsgreinafélag á Austurlandi, Framsýn stéttarfélag í Þingeyjarsýslum, Verkalýðsfélag Akraness, Hlíf í Hafnarfirði, Efling og Drífandi í Vestmannaeyjum. Búist er við að Launanefndin leggi tilboð fyrir þessi félög á næstu dögum.

Launanefnd sveitarfélaga og Reykjavíkurborg vinna mjög náið saman og er tilboð LN til SGS því keimlíkt því tilboði sem Reykjavíkurborg lagði fyrir Eflingu. Þar var boðið upp á 20.300 króna taxtahækkun frá 1. desember og 0,13% framlagi í endurhæfingarsjóð.

Launanefndin vill semja til allt að eins árs en stéttarfélögin telja rétt að semja til skemmri tíma eða til vors 2009.

Signý Jóhannesdóttir
Signý Jóhannesdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert