Víðtækar rannsóknarheimildir

Formenn þingflokkanna hafa náð samkomulagi um hvernig eigi að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka bankahrunið og aðdraganda þess. Frumvarp þess efnis var rætt á fundum þingflokkanna klukkan fjögur en allir formennirnir eru sáttir við efni frumvarpsins.

Nefndin fær mjög víðtækar heimildir til að kalla menn fyrir og gera þeim skylt að láta í té upplýsingar jafnvel þótt þær séu háðar þagnarskyldu eða bankaleynd.

Samkvæmt frumvarpinu tilnefnir Hæstiréttur einn nefndarmann, umboðsmaður Alþingis tilnefnir tvo og forsætisnefnd Alþingis skipar sérstakan sérfræðing í efnahagsmálum. Þá getur nefndin skipað vinnuhópa og undirnefndir til að skoða betur einstaka þætti rannsóknarinnar.

Nefndinni er ætlað að grafast fyrir um orsakir hrunsins, eftirlit með fjármálastarfsemi, löggjöfina, viðbrögð stjórnvalda auk þess að leggja mat á gjaldmiðils og peningamálastefnuna. Nefndin mun þó beina sérstaklega augum að bönkunum sjálfum og fær víðtækar heimildir til að skoða fjármögnun bankanna, útlánastefnu þeirra, eignarhald, tengsl við atvinnulífið og fjármagnsflutninga til og frá landinu.

Nefndin getur farið jafn langt aftur í tímann við rannsóknina og hún telur sig þurfa til að fá sem gleggsta yfirsýn yfir málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert