Borgin vill fá frekari svör um áform Glitnis

Höfuðstöðvar Glitnis á Kirkjusandi
Höfuðstöðvar Glitnis á Kirkjusandi mbl.is/ÞÖK

Skipulagsráð Reykjavíkur tók í gær til afgreiðslu umsókn Lóms ehf. dagsetta 10. nóvember síðastliðinn varðandi breytingu á deiliskipulagi svokallaðs Glitnisreits, þ.e. vegna lóðanna að Kirkjusandi 2 og Borgartúns 41. Skipulagsráð samþykkti bókun, þar sem farið er fram á nánari upplýsingar frá Glitni, hvað hann hyggist fyrir með umrædda lóð.

Bókun skipulagsráðs er svohljóðandi:

„Skipulagsráð telur mikilvægt að skýra ýmsa þætti sem snúa að Glitnisreit en á reitnum hefur verið gert ráð fyrir því að rísi höfuðstöðvar Glitnis. Með tilliti til aðstæðna felur ráðið skipulagsstjóra að afla upplýsinga varðandi eignarhald og uppbyggingaráform eiganda. Umsókn um breytt deiliskipulag er í nafni Lóms ehf. en samkvæmt gögnum málsins er það félag í eigu Glitnis Banka ehf. Óskað er upplýsinga um hver fari með stjórn félagsins og hvert hún sæki umboð sitt. Jafnframt þarf að svara því hvort enn sé gert ráð fyrir nýjum höfuðstöðvum bankans á þessum stað. Samráð hefur ekki verið haft við Reykjavíkurborg um áætlað byggingarmagn og aukningu á íbúðarhluta tillögunnar á kostnað skrifstofuhúsnæðis. Einnig felur skipulagsráð skipulagsstjóra að fara yfir lögfræðilega hlið málsins með hliðsjón af breyttum forsendum.“

Glitnir keypti lóðina á Kirkjusandi af Reykjavíkurborg í mars 2006 og greiddi fyrir hana 972 milljónir króna. Á umræddri lóð voru áður höfuðstöðvar Strætó. Efnt var til samkeppni um skipulag á lóðinni og varð arkitektastofan Monarken í Stokkhólmi hlutskörpust. Samkvæmt henni áttu nýjar höfuðstöðvar Glitnis að vera 14 þúsund fermetrar að stærð. Á lóðinni var einnig gert ráð fyrir mörgum stórum skrifstofubyggingum auk íbúðabygginga.

Þessi áform virtust vera í uppnámi eftir að Glitnir fór í þrot en nú hefur dótturfélag bankans, rúmum mánuði seinna, óskað eftir breytingum á deiliskipulaginu. Á þessu vill skipulagsráð fá frekari skýringar. Umsókn Lóms fylgir 9 blaðsíðna greinargerð Monarken og arkitektafyrirtækisins Batterísins. Þá fylgja einnig með ítarlegar greinargerðir um lausn umferðarmála og hljóðvistar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert