Kosningar eru hættuspil

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segir ljóst að það hafi orðið trúnaðarbrestur milli ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar. Það sé þó hættuspil að fara í alþingiskosningar við núverandi aðstæður, slíkt geti valdið pólitískri kreppu, kynnt undir verðbólgu og stefnt afkomu launafólks í hættu.  

Hann segist finna að það sé vilji mikils meirihluta þjóðarinnar að fá að kjósa og vill að ríkisstjórnin sættist við þjóðina án þess að gengið er til kosninga með því að stokka upp í ríkisstjórn, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og breyta eftirlaunalögunum og jafna lífeyrisréttindi ráðamanna og almennings.

En ríkisstjórnin hefur ekki bara fengið á sig gagnrýni heldur líka verkalýðsforystan. Til að mynda krafðist stór hópur fólks þess að formaður Verslunarmannafélagsins segði af sér.

Gylfi Arnbjörnsson segir að miðstjórn ASÍ hafi ályktað um að athafnir Gunnars Páls Pálssonar í stjórn Kaupþings hafi verið ósiðlegar og ósanngjarnar. Eina leiðin til að leysa málið hafi verið að leggja það í dóm félagsmanna. Þessvegna hafi kosningum verið flýtt í verslunarmannafélaginu. Lengra sé ekki hægt að ganga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert