Loka vinstri beygju af Bústaðavegi

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu þess efnis að loka vinstri beygju af Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut í Elliðaárdal. Lokað verður í ársbyrjun 2009 og varir lokunin í sex mánuði til reynslu. Á reynslutímanum er ætlunin að kanna hve mikið lokunin greiðir fyrir umferð á þessum gatnamótum og styttir biðraðir sem myndast á annatímum.

Gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar hafa verið til skoðunar um nokkurn tíma þar sem til umræðu hefur verið að gera tilraun með lokun á vinstri beygjunni inn á Reykjanesbraut. Umhverfis- og samgönguráð samþykkti einróma tillögu þessa efnis á fundi sínum í vikunni. Áður en tilraunin kemur til framkvæmda verður málið kynnt vel fyrir íbúum hverfisins og öryggi skólabarna í hverfinu tryggt með viðeigandi aðgerðum.  

Umferð á Réttarholtsvegi, Sogavegi og Bústaðavegi verður talin fyrir og eftir breytingu til að sjá áhrifin sem breytingin veldur í aðliggjandi íbúðahverfum. Framkvæmdin verður kynnt í viðkomandi hverfaráðum fyrir og eftir reynslutímann.

Samráð verður haft við Vegagerðina um framkvæmdir en stefnt er að lokun vinstri beygjunnar þegar birta fer af degi á nýju ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert