Ítreka kröfur um bætur vegna peningabréfa

mbl.is/hag

Hópur fólks sem tapaði fjármunum í peningabréfasjóði Landsbankans hefur ítrekað kröfur sínar um bætur. Hópurinn þingaði í gær með Elínu Sigfúsdóttur, bankastjóra nýja Landsbankans og Ásmundi Stefánssyni, formanni bankaráðs.

Á fundinn mættu tæplega 200 mans sem tapað hafa rúmum þriðjungi sparnaðar í peningabréfum Landsbankans. Mikil reiði ríkir meðal eigenda peningamarkaðsbréfanna. Sú reiði beinist ekki síst að starfsfólki Landsbankans sem hvatti fólk á sínum tíma til að flytja fé sitt af innlánsreikningum yfir í peningabréf. Bréfin hafi verið kynnt sem Sparireikningur og því áhættulaus og án bindingar. Peningabréfin hafi ekki verið kynnt þannig að fólk ætti á hættu að tapa verulegum hluta höfuðstóls sparnaðar síns. 

Fjárfestingarstefna sjóðsins var og harkalega gagnrýnd og ítrekaðar kröfur um að rannsakað verði hvort innherjar hafi verið í þeim hópi sem innleysti bréfin sín fáum dögum fyrir hrun bankans. Að minnsta kosti 70 milljarðar króna streymdu úr peningamarkaðssjóðum Landsbankans fáum dögum fyrir hrunið.

Á fundinum var upplýst að fyrrverandi stjórnarformaður sjóðsins hafi sagt upp störfum en ein krafa fjármagnseigendanna var að framkvæmdastjórinn yrði látinn víkja, m.a. vegna óskynsamlegra fjárfestinga og þess að sjóðurinn skilaði mestu tapi peningamarkaðssjóða gömlu bankanna þriggja.

Fólk sem átti fé í peningabréfasjóði Landsbankans vill að það sem sagt er tapað verði lagt á verðtryggða reikninga sem yrðu lausir eftir einhver ár. Skuldajöfnun kemur einnig til greina eða að eigendur peningabréfanna fái hlutabréf í nýju bönkunum. Þá hefur verið nefnt að þar sem um ríkisbanka er að ræða, geti skattaafsláttur komið til.

Eigendur peningabréfanna segjast ekki ætla að borga fyrir óábyrg vinnubrögð  banka- og ráðamanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert