Óskuðu þess að hætta hjá bankanum

hag / Haraldur Guðjónsson

Forsvarsmenn peningamarkaðssjóða Landsbankans, Stefán H. Stefánsson og Sigurður Ó. Hákonarson, óskuðu báðir eftir því í gær að láta af störfum. Þetta segir Atli Atlason, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Nýja Landsbankans.   Þeim hafi ekki verið sagt upp störfum og þeir vilji frið um svið bankans.

„Bankinn hefur fallist á beiðni þeirra að láta af störfum. Þeir eru ennþá starfandi og láta af störfum á næstu dögum. Þeir munu ganga frá sínum málum og koma verkefnum yfir á aðra. Tilgangur þeirra með þessu er að  friður og sátt náist um eignastýringasvið bankans.“

Stefán H. Stefánsson var framkvæmdastjóri eignastýringasviðs. Sigurður Ó. Hákonarson var framkvæmdastjóri rekstrarfélags verðbréfa- og fjárfestingasjóða Landsbankans, Landsvaka. Landsvaki hélt utan um peningamarkaðssjóði bankans.

Sjóðirnir fóru illa út úr hruni bankanna. Eigendur innlendu bréfanna misstu þriðjung af sparnaði sínum.

Atli segir ekki búið að ganga frá því hverjir taki við störfum þeirra. „Við féllumst á uppsagnirnar en höfum ekki haft tíma til að huga að því hverjir taka við.“

Atli segir ekki aðra starfsmenn ekki hafa tekið sömu ákvörðun á sömu forsendum og þeir Sigurður og Stefán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert