Viðskiptaráðherra hefur lagt línurnar

Fundur viðskiptaráðherra með yfirmönnum banka- og eftirlitsstofna.
Fundur viðskiptaráðherra með yfirmönnum banka- og eftirlitsstofna. Mynd/Ragnar Axelsson

Viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, fundaði með forsvarsmönnum skilanefnda gömlu bankanna, stjórnarmönnum nýju bankanna og forsvarsmönnum fjármálaeftirlitsins nú eftir hádegi.  Björgvin vill að söluferli fyrirtækja sem lenda í höndunum á ríkisbönkunum séu gegnsæ og að jafnræðis sé gætt.

Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Björgvin að hann finni fyrir gagnrýni á leynd bankanna við uppgjör þeirra sem lánadrottna við fyrirtæki sem semji nú um stöðu sína. Á fundinum eigi að þrýsta á um að ferlið verði bætt.

Bankaráð nýju bankanna hefur þegar gripið inn starfsemi Landsbankans. Bankinn er helsti kröfuhafi Stoða og stöðvaði bankaráð  yfirtöku félagsins Kaldbaks, sem Þorsteinn Már Baldvinsson leiðir, á tryggingafélaginu TM í gær. Stoðir, sem eru í greiðslustöðvun, ætlaði að láta félagið eftir gegn því að skuldir þess yrðu teknar yfir.

Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa ferli ríkisbankanna í slíkum málum er hagfræðingurinn Jón Steinsson. Hann vill meðal annars sjá að auglýst verði eftir hugsanlegum kaupum á fyrirtækjum í stöðu TM. Tryggingafélagið sé í raun ígildi ríkiseignar vegna skuldastöðu Stoða. Fráleitt sé að svo stór eignasala eigi sér stað án þess að ríkisstjórnin samþykki hana formlega.

 „Ráðherrar eiga ekki að geta vísað ábyrgð á þessu máli á undirmenn sína í stjórnum bankanna og einfaldlega sagt að þessar ákvarðanir séu teknar á „viðskiptalegum forsendum.“

Markmið fundarins er meðal annars að setja svona mál í rétt ferli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert