Sönnunargagnið í sjóinn

Togari við lögsögumörkin á Reykjaneshrygg.
Togari við lögsögumörkin á Reykjaneshrygg. mbl.is/Landhelgisgæslan

Gunur hefur leikið á því um langa hríð að færeyskir togarar hafi stundað ólöglegar veiðar í íslenskri lögsögu milli Íslands og Færeyja. Þetta hefur sannast í einstaka tilfellum en framferði skipstjóra færeysku togaranna hefur leitt að því líkur, að þessar veiðar hafi verið stundaðar í enn meira mæli. Þeir leita í gjöful mið og dæmi munu vera um allt að 30 tonna þorskafla á einum sólarhring, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Nýjasta dæmið kom upp í vikunni, þegar fréttir bárust af því að færeyskt varðskip hefði tekið tvo færeyska togara, Bresti og Vestleika, við miðlínuna, og fært þá til hafnar í Þórshöfn, vegna gruns um fiskveiðibrot. Landhelgisgæslan fékk enga tilkynningu um þetta mál og fréttu starfsmenn Gæslunnar fyrst af því á heimasíðu færeyska dagblaðsins Dimmalætting.

Samkvæmt frétt blaðsins telur ákæruvaldið í Færeyjum sig hafa rökstuddan grun um að báðir togararnir hafi verið á ólöglegum veiðum í íslenskri lögsögu með slökkt á fjareftirlitsbúnaði, sem sýnir hvar skipin eru stödd. Samkvæmt frétt Dimmalætting hafa skipstjórar beggja togaranna viðurkennt að hafa slökkt á fjareftirlitsbúnaðinum. Þá hefur skipstjórinn á Bresti jafnframt viðurkennt að hafa gengið skrefinu lengra og kastað siglingatölvu skipsins í sjóinn, þegar skipið var á leið til hafnar í Færeyjum 16. nóvember sl. Þar með fór helsta sönnunargagn ákæruvaldsins í sjóinn. Að sögn Halldórs B. Nellett, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, kostar svona tölva nokkur hundruð þúsund krónur, sem er lág upphæð ef miðað er við sektir fyrir landhelgisbrot, ef þau sannast. Þá getur sektin numið milljónum króna auk þess sem afli og veiðarfæri eru gerð upptæk. Segir Halldór að þessi háttsemi skipstjórans bendi vissulega til þess, að hann hafi ekki haft hreint mjöl í pokahorninu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert