106 milljarðar til fræðslumála

Árið 2007 námu heildarútgjöld til fræðslumála 106,4 milljörðum króna eða 8,2% af landsframleiðslu. Hefur þetta hlutfall farið hækkandi undanfarin ár en það var 7,1% af landsframleiðslu 1998.

Hlutur hins opinbera af útgjöldum til fræðslumála var 96,3 milljarðar króna á síðasta ári en hlutur einkaaðila 10,1 milljarður eða 9,5% af útgjöldunum. Af heildarútgjöldum hins opinbera árið 2007 runnu 18,8% til fræðslumála.

Af heildarútgjöldum til fræðslumála árið 2007 runnu um 11,4% til fræðsluhluta leikskólans, 45,1% til grunnskólans, 17,9% til framhaldsskóla, 18,4% til háskólastigsins og 7,3% til stjórnsýslu menntamála og þátta sem ekki tilheyra ákveðnu skólastigi. 

Heildarútgjöld til fræðslumála í aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) voru að meðaltali 5,7% af landsframleiðslu ríkjanna árið 2005 en mikill munur er á því hlutfalli milli einstakra ríkja. Í Ísrael var hlutfallið hæst eða 8,3% árið 2005 en 3,4% í Grikklandi það ár. Á þennan mælikvarða litið var Ísland í 2. sæti OECD-ríkjanna en hér runnu 8% af landsframleiðslu til fræðslumála á árinu 2005.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert