Kjararáð getur ekki lækkað launin

Stjórnarráðið.
Stjórnarráðið. mbl.is/Sverrir

Kjararáð ætlar ekki að lækka laun æðstu ráðamanna. Ríkisstjórnin ætlar hins vegar að leita lausna til þess að lækka launin. Til greina kemur að setja lög. Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar nú rétt í þessu.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir dagaspursmál hvenær ákvörðun ríkisstjórnarinnar vegna ákvörðunar kjararáðs verður kynnt. Geir skrifaði bréf til kjararáðsins þar sem beint var þeim tilmælum til ráðsins að það ákveði tímabundið launalækkanir á bilinu 5-15% hjá þeim sem heyra undir ráðið.

Kjararáð vísar m.a. í lög um ráðið og telur þau ekki heimila að tekin verði ákvörðun um launalækkun með þessum hætti. Ráðið segir að sér sé ljóst að hrun íslensku bankanna og hin alþjóðlega fjármálakreppa hafi haft og muni hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir allan almenning og ríkissjóð. Líklegt sé, að áhrifin á launaþróun verði veruleg. Ráðinu sé hins vegar ekki ætlað að vera stefnumótandi um kjaraþróun í landinu.

„Í ljósi þess að skammt er liðið frá því að efnahagsáföllin dundu yfir, kjarasamningar hafa ekki verið endurskoðaðir og traust gögn um launaþróun síðustu tveggja mánaða liggja ekki enn fyrir, telur kjararáð ekki lagaskilyrði til að fella nýjan almennan úrskurð um laun og starfskjör þeirra, sem úrskurðarvald ráðsins tekur til. Kjararáð mun, eins og endranær, fylgjast með þróun kjaramála og taka málið upp þegar upplýsingar liggja fyrir, sem gera það skylt," segir í svarbréfi ráðsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert