Ráðist á lögreglumann

Lögreglumaður hlaut minniháttar áverka þegar karlmaður, sem hafði verið tekinn fyrir að aka undir áhrifum áfengis, réðst á hann á lögreglustöðinni við Hverfisgötu um níuleytið í morgun. Verið var að færa árásarmanninn fyrir varðstjóra þegar hann veitti lögreglumanninum  skyndilega hnefahögg.

Lögreglumaðurinn vankaðist við höggið en slapp við beinbrot. Hann hruflaðist og það blæddi úr sári að sögn Geirs Jóns Þórissonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglumaðurinn fór sjálfur á slysadeild til að láta gera að sárum sínum.

„Þetta er mjög óvanalegt,“ segir Geir Jón og bætir við að árásin hafi verið tilefnislaus.

Búið er að kæra árásarmanninn fyrir líkamsárás. Hann var mjög ölvaður og það var ekki hægt að taka af honum skýrslu fyrr en síðdegis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert