Um 80% hafa misst vinnuna

Um 80% af starfsfólki á fasteignasölum hefur verið sagt upp á þessu ári. „Ástandið á fasteignamarkaðinum er mjög alvarlegt og eigendur allflestra fasteignasalna róa lífróður í þeirri von að markaðurinn taki eitthvað við sér strax á næstu mánuðum,“ segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.

Grétar segir að ástandið sé alvarlegra og svartara en það hafi nokkru sinni verið frá upphafi fasteignasölu á Íslandi. Það sé sorglegt að sjá hæft, vel menntað og öflugt fólk á þessu sviði í algerri óvissu.

Hann segir að taki fasteignamarkaðurinn, sem sé lífæð margra atvinnugreina, ekki við sér á næstu mánuðum muni það leiða til algers hruns fasteignasalastéttarinnar.

Hann segir að búið sé að setja á laggirnar sérstaka krísnefnd skipuðum reynslumiklum fasteignasölum. Nefndin, sem muni koma saman á morgun, muni „huga að mögulegum úrræðum í þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er þegar nánast engin fasteignaviðskipti eiga sér stað, og um leið þá hættu sem þjóðarauðurinn er í, en hann hefur að stærstu leiti að geyma fasteignir fólksins í landinu sem þeirra einu eign mjög víða.“

Grétar segir að ef fasteignamarkaðurinn verði mikið lengur frosinn muni verðmæti fólks í fasteignum þeirra skaðast enn meira en þegar sé orðið „og fjöldi fólks mun sitja í yfirveðsettum fasteignum, og ekki gert mögulegt að selja,“ segir hann og bætir við: „Það er nauðsynlegt að brugðist verði við því frosti sem er á markaðnum og að lögboðnu hlutverki ÍLS, að aðstoða fólk að eignast þak yfir höfuðið, verði tryggt.“

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.
Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert