Biður ESB að undirbúa aðild Íslendinga

Matti Vanhanen, annar frá hægri, ásamt öðrum norrænum forsætisráðherrum í …
Matti Vanhanen, annar frá hægri, ásamt öðrum norrænum forsætisráðherrum í Finnlandi nýlega. Reuters

Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, segist hafa beðið Evrópusambandið að undirbúa aðild Íslands að sambandinu þannig að landið geti gengið í ESB innan 6-18 mánaða frá því það sæki um aðild. Boomberg fréttaveitan segir frá þessu.

Bloomberg hefur eftir Vanhanen, að það yrði mjög auðvelt fyrir Íslendinga, að uppfylla aðildarkröfur Evrópusambandsins. „Þeir uppfylla flest skilyrðin og sum þeirra jafnvel betur en meðalríki innan Evrópusambandsins," segir Vanhanen.

Vísað er til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lýst því yfir í nóvember að farið verði yfir alla þætti Evrópustefnu flokksins fyrir flokksþing í janúarlok. Þá hafi Samfylkingin það á stefnuskrá sinni, að sækja um aðild að ESB.

Vanhanen segist hafa beðið José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að byrja að búa ESB undir aðild Íslands. 

„Við vitum hve nauðsynlegt það er fyrir Ísland að við sýnum sveigjanleika við að leysa þessi vandamál ef Ísland vill ganga í Evrópusambandið," segir Vanhanen.

Hann segir að myndi taka Ísland allt frá hálfu ári til 18 mánaða að fá aðild að ESB ef íslensk stjórnvöld ákveða að sækja um. 

Vanhanen segist einnig í viðtalinu hafna þeirri hugmynd, að Ísland taki upp evru sem mynt áður en landið gengur í Evrópusambandið.  „Ég teldi ekki eðlilegt að eiga aðild að evru án þess að vera í ESB. Ég tel að eðlilegast væri að landið fái ESB-aðild fyrst." 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert