Hitti Davíð ekki í tæpt ár

Birkir Jón sagði að Davíð Oddsson hefði á fundi viðskiptanefnda Alþingis í dag sagst hafa margvarað stjórnvöld við erfiðri stöðu bankanna og m.a. orðað það svo að 0% líkur væru á að íslensku bankarnir myndu lifa af aðsteðjandi erfiðleika.

Björgvin sagði, að frá því krónan féll um þrjátíu prósent í mars hafi öllum Íslendingum verið morgunljóst að Íslendingar væru í efnahagslegum örðugleikum. Engum hefði hins vegar dottið í hug að núverandi staða gæti komið upp fyrr en eftir fall Lehman Brothers í september.

Björgvin vísaði í stöðugleikaskýrslu Seðlabankans frá því í maí en þar er staða bankanna sögð almennt góð. Það væru hin opinberu gögn. „Hvað fór fram á einhverjum fundum, óskilgreindum, Seðlabankastjóra og einhverra ráðherra hef ég ekki hugmynd um,“ sagði Björgvin.

Birkir Jón sagði það grafalvarlegt mál ef ráðherra bankamála hefði ekki hugmynd um stöðu íslensks fjármálalífs. Það væri grafalvarlegt mál ef forystumenn ríkisstjórnarinnar hefðu ekki boðað viðskiptaráðherra á þessa fundi. Þá væri það grafalvarlegt, að bankamálaráðherra skyldi ekki hafa haft nein samskipti við Seðlabankann frá því í nóvember á síðasta ári og það væri grafalvarlegt að ekkert traust ríkti milli ráðherra og yfirstjórnar Seðlabankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert