Segja óheimilt að breyta rennsli Laxár

Starfsmenn í Laxárstöð.
Starfsmenn í Laxárstöð. mbl.is/Birkir Fanndal

Náttúruverndarsamtök Íslands segja Laxá í Laxárdal friðaða og því sé óheimilt að breyta rennsli hennar.

Í norðanáhlaupinu í lok síðustu viku rak mikið krap í útrennsli Laxár úr Mývatni en við það dró stórlega úr rennsli árinnar við Geirastaði og það stíflaði alveg farveginn um Miðkvísl. Þetta hefur keðjuverkandi áhrif niður Laxárdalinn með minna rennsli og vaxandi krapi.

Framleiðslugeta Laxárvirkjunar hefur minnkað um nær helming vegna þessa og segir aðstoðarstöðvarstjóri virkjunarinnar að hækka þurfi stíflur um nokkra metra til að koma í veg fyrir að framleiðslugeta skerðist með þessum hætti.

En hækkun stíflunnar hefur mætt andstöðu landeiganda. Sama er að segja um Náttúruverndarsamtök Íslands. Þau benda á aðrar lausnir til að stemma stigu við ísvandamálinu.

„Vandamálið er að inntak Laxár III er hannað fyrir lón, sem aldrei var gert, vegna Laxárdeilunnar. Opið stendur því uppúr vatninu og ís á greiða leið inn í aðrennslisgöngin. Þetta á að vera hægt að laga án þess að eyðileggja einhvern fallegasta dal landsins með uppistöðulóni. Bent hefur verið á leiðir til að veita ísnum framhjá opinu. Þær leiðir hafa, eftir því sem næst verður komist, ekki verið skoðaðar í alvöru vegna þess að uppistöðulón er sú lausn sem Landsvirkjun einblínir á,“ segir í yfirlýsingu Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Samtökin benda á að lón í mynni Laxárdals myndi eyðileggja hið sérstæða umhverfi árinnar á talsverðum kafla og einmitt í fordyri dalsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert