Síldarsýkingin mikið áfall

Einar K. Guðfinnsson á þingi Sjómannasambands Íslands í dag.
Einar K. Guðfinnsson á þingi Sjómannasambands Íslands í dag. mbl.is/Kristinn

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, sagði á ársþingi Sjómannasambands Íslands í dag, að vel heppnuð fiskveiðistjórnun hafi gert Íslendingum kleift að auka aflaheimildir í síldveiðum undanfarin ár. Þeim mun dapurlegra sé að standa nú frammi fyrir þeirri óvissu sem sýking í síldinni hafi skapað.

Einar sagði, að þrennt hefði dunið á sjávarútveginum  á skömmum tíma og valdið miklum erfiðleikum. Í fyrsta lagi skerðing á þorskafla á síðasta ári sem reyndar hafi valdið minni búsifjum en margur hugði. Í öðru lagi sú efnahagsstaða sem nú er uppi og í þriðja lagi nýuppgötvuð sýking í íslensku sumargotssíldinni.

„Eitt er auðvitað að standa frammi fyrir mjög umtalsverðu tekjutapi á þessari vertíð, sem virðist vera orðin óhagganleg staðreynd. Hitt er auðvitað miklu alvarlegra ef þessi sýking í síldinni skaðar stofninn sjálfan. Síldarstofninn hefur byggst upp á undanförnum árum. Við höfum fylgt einstaklega varkárri nýtingarstefnu, sem hefur gefið okkur færi á að auka aflaheimildir hin síðari ár. Sá 150 þúsund tonna síldarafli sem við drógum úr sjó á síðustu vertíð og ætlum okkur að veiða á þessari vertíð er til marks um vel heppnaða fiskveiðistjórnun sem byggt hefur á vandaðri ráðgjöf. Þeim mun dapurlegra er að standa nú frammi fyrir þeirri óvissu sem sýking í síldinni hefur skapað,“ sagði Einar K. Guðfinnsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert