Eitthvað rotið í Seðlabankanum

Össur Skarphéðinsson segir Davíð Oddsson hóta ríkisstjórninni, stunda blekkingaleik í Seðlabankanum og róa að því öllum árum að sundra sínum gamla flokki. Hann sakni greinilega þess að deila og drottna og ætti bara að snúa aftur í pólitíkina.

Davíð Oddsson hefur ítrekað fullyrt að hann hafi varað ráðherra ríkisstjórnarinnar við því að bankarnir væru í fallhættu. Í júní segist hann nú hafa sagt að það væru núll prósent líkur á því að bankarnir lifðu þetta af.  Ráðherrar Samfylkingarinnar hafa neitað því að hafa fengið slíka viðvörun.

Össur Skarphéðinsson segir seðlabankastjórann aldrei hafa rætt um bankana við sig. Þvert á móti hafi hann gefið út opinbert heilbrigðisvottorð fyrir bankana í maí. Geir H. Haarde segir hinsvegar seðlabankastjórann vitna í símtal sem hann muni ekki sjálfur eftir.

En hversu líklegt er að forsætisráðherra sem fengi símtal frá Seðlabankastjóranum um að núll prósent líkur væru á því að bankarnir lifðu af myndi gleyma því? Geir svarar því þannig að þau séu orðin svo mörg símtölin og hann hafi ekki skrifað allt hjá sér sem komið hafi fram í þeim símtölum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert