Hagstjórn illa samhæfð

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Skuldir sveitarfélaga jukust mikið, og lán þeirra einnig, á mesta þenslutíma sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf í sögunni, frá árslokum 2004 til 2008. Þetta sýna tölur sem Seðlabanki Íslands tók saman fyrir Morgunblaðið og byggjast á upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Margt bendir til þess að þeirri gildu hagstjórnarreglu að opinberir aðilar haldi að sér höndum í uppsveiflu en framkvæmi í niðursveiflu hafi ekki verið fylgt í gegnum þensluskeið sem nú er á enda. Á þetta sérstaklega, og nær eingöngu, við um höfuðborgarsvæðið þegar sveitarfélögin eru skoðuð sérstaklega.

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur á rannsóknar- og spádeild Seðlabanka Íslands, segir margt benda til þess að helsti lærdómurinn sem draga megi af þeim hremmingum sem íslenskt efnhagslíf sé nú í verði að ríki og sveitarfélög ásamt Seðlabanka verði að ganga í takt þegar kemur að hagstjórn. „Miklar framkvæmdir hins opinbera á þenslutímum endurspegla þá bjartsýni og þá „húsnæðisbólu“ sem hér var og átti sér varla sína líka nokkurs staðar í heiminum. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, eins og fyrirtæki og ríki, tóku fullan þátt í því að kynda undir þenslunni með óhóflegri framgöngu. Á þetta benti Seðlabankinn ítrekað. Því miður hafa fjármál opinberra aðila ekki verið í takt við Seðlabankann og á varnaðarorð hans um þessi mál var ekki hlustað.“

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir margt benda til þess að illa hafi gengið að samhæfa hagstjórnina. Hröð útþensla hjá sveitarfélögum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafi ekki verið skynsamleg í því árferði sem var ríkjandi. Hins vegar hafi viðvörunarorðin úr Seðlabankanum ekki náð eyrum sveitarstjórnarmanna. „Ég get alveg viðurkennt það að ég heyrði ekki af þessum viðvörunarorðum Seðlabankans er varða fjármál sveitarfélaga. Hins vegar er því ekkert að leyna að sveitarfélög, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, stóðu í umsvifamiklum framkvæmdum á sama tíma og mikil þensla var einkennandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert