Heilbrigðisstofnanir hagræði

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Ómar

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra kynnti hugmyndir sínar um stóraukið samstarf á sviði útboða og sameiginlegra innkaupa heilbrigðisstofnana á fundi ríkisstjórnar í morgun.

Fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu að ráðherra hafi komið á fót vinnuhópi fyrir stuttu sem fékk það hlutverk að setja fram tillögur og kanna ma. möguleika á öflugra samstarfi sjúkrahúsa við útboð, innkaup og pökkun lyfja.

Þá segir að markmið ráðherra sé að ná fram aukinni hagkvæmni í lyfjainnkaupum í heilbrigðisþjónustunni. Þær stofnanir sem fyrst og fremst sé rætt um í þessu sambandi séu heilbrigðisstofnanir víðs vegar um landið, heilsugæslustöðvar um land allt og síðast en ekki síst öldrunar-og hjúkrunarstofnanir.

Landspítalinn býður sjálfur út lyf stærðar sinnar vegna, en spítalinn kaupir inn og býður út lyf, lækningatæki- og vörur fyrir rúmlega sjö milljarða króna á þessu ári.

Farið yfir tillögur vinnuhóps

Vinnuhópurinn sem ráðherra skipaði skilaði nýverið fyrstu hugmyndum sínum þar sem rætt er ma. um útboð og samninga vegna lyfjainnkaupa, samræmda lyfjalista, og þjónustu á sviði lyfjamála.

Innan heilbrigðisráðuneytisins hefur verið farið yfir tillögur vinnuhópsins. Til að hrinda hugmyndum hans í framkvæmd er lagt til að sett verði á laggirnar samstarfsnefnd heilbrigðisstofnana og fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Í henni sætu fulltrúar Landsambands sjúkrahúsa, Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, Landspítala og Sjúkratrygginga Íslands.

Gert er ráð fyrir að samstarfsnefndin yrði samstarfsvettvangur stofnananna og fyrirtækjanna þegar kemur að undirbúningi útboða, innkaupum lyfja og pökkun lyfja fyrir þær stofnanir sem þyrftu á slíkri þjónustu að halda, auk innkaupa á lækninga- og hjúkrunarvörum sem aðilar að samstarfinu sæju sér hag í að hafa samvinnu um.

Draga má úr kostanði sem nemur 150 milljónum kr. á ári

Lauslegt hagkvæmnismat bendir til að draga megi úr kostnaði sem nemur  rúmlega 150 milljónir króna árlega með sameiginlegum innkaupum og útboðum lyfja. Með því að standa sameiginlega að útboðum og innkaupum lyfja og lækningavöru má draga enn meira úr rekstarkostnaði í heilbrigðisþjónustunni.

Guðlaugur Þór leggur ríka áherslu á að skapa heilbrigðisstofnunum forsendur til að ná fram hagkvæmni í rekstri með útboðum og sameiginlegum innkaupum, ekki bara á innlendum vettvangi heldur og í samvinnu við heilbrigðisstofnanir í nálægum löndum.

Viðræður hafa farið fram um þetta við Norðmenn, Dani og Færeyinga. Samstarf við Svía um gagnkvæm markaðsleyfi er staðreynd og á fundi heilbrigðisráðherra með Bjarne Håkan Hansen, heilbrigðisráðherra Norðmanna fyrir skemmstu kom fram eindreginn vilji beggja ráðherranna að efla mjög samskipti landanna á þessu sviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert