Aðildarviðræður koma til greina

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. hag / Haraldur Guðjónsson

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun að honum þætti koma til greina að óskað yrði eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið á þeim forsendum sem hentuðu Íslendingum. Gæta yrði að þjóðarhagsmunum og auðlindum landsins og ef hægt væri að fá samning sem tæki tillit til þessa væri það nokkuð sem þyrfti að athuga. Skoða yrði svo kosti og galla slíks samnings og taka í lokin afstöðu með eða á móti.

„Mér finnst alveg koma til greina að við stígum skrefi lengra með þetta mál, þ.e.a.s. óskum eftir aðildarviðræðum á forsendum sem okkur henta. Þ.e.a.s. þeim að við gætum okkar þjóðarhagsmuna í hvívetna og okkar mikilvægustu auðlinda. Ef hægt er að fá samning út á slíkt þá er það eitthvað sem þyrfti að athuga en það þyrfti að leiða í ljós hverjir kostirnir eru. Á endanum þegar þetta mál er til lykta leitt, hversu langan tíma sem það tekur, verða menn að segja annaðhvort já eða nei,“ sagði Geir.

Geir sagðist þó ekki vilja leggja neitt til á þessarri stundu þar sem unnið væri að málinu innan Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði að sú vinna sem færi fram innan Sjálfstæðisflokksins fyrir flokksfundinn í janúar væri endurmat á þeim forsendum sem afstaða Sjálfstæðisflokksins hafi byggst á fram til þessa. Komi í ljós að forsendurnar hafi breyst, m.a. vegna yfirsteðjandi erfiðleika, verði Sjálfstæðisflokkurinn reiðubúinn til að endurskoða afstöðu sína í Evrópusambandsmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert