Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki

mbl.is/Ómar

Aukafundi flokksráðs Vinstri grænna er nýlokið og sóttu hann yfir 120 félagar. Mikil stemmning var á fundinum og tekist á um áherslur. Skjal stjórnar VG um endurmótun samfélagsins var samþykkt efnislega einróma og vísað til áframhaldandi úrvinnslu í grasrót flokksins.

Ályktun um sveitastjórnarmál var samþykkt samhljóða. Þar segir að VG telji það vera sameiginlegt verkefni hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, að standa vörð um hag almennings.

Sveitarfélögin gegni lykilhlutverki í endurmótun samfélagsins og mikilvægi þeirra við uppbyggingu og endurmat sé ótvírætt í samstarfi við íbúa, félagasamtök og hagsmunaaðila. Þau standi íbúunum næst og sinni verkefnum á sviði velferðar og menntunar. Sérstaklega þurfi að styrkja og efla sveitarfélögin við þau skilyrði sem nú eru uppi.

Þá sé mikilvægt að löggjafinn tryggi Lánasjóði sveitarfélaga og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fé til að lána sveitarfélögum til rekstrar við þær sérstöku aðstæður sem nú ríkja. Þó verði jafnframt tryggt að rekstur sveitarfélaga verði lagaður að þeim aðstæðum sem skapast hafa þannig að Lánasjóðurinn komist ekki í þrot.

Það er skýlaus krafa sveitarstjórnarráðs Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að við mótun efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar verði hagsmunir sveitarfélaganna hafðir í forgangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert